„Ef öll flugfélög ættu að fá sömu tímana þyrfti að byggja svo stóra flugvelli, að hægt væri að afgreiða alla á sama tíma, en flugfarþegar þyrftu að borga fyrir það,“ segir Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia.
EFTA-dómstólinn birti í morgun ráðgefandi álit í máli WOW gegn Isavia. Forsaga málsins er sú að fyrir WOW kvartaði til Samkeppniseftirlitsins í nóvember 2013 vegna fyrirkomulags við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli, sem flugfélagið taldi það hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Eftirlitið fór í kjölfarið fram á það við Isavia, rekstraraðila flugvallarins, að WOW fengi tvo af brottfarartímunum Icelandair fyrir Bandaríkjaflug. Úrskurðinum var áfrýjað þar sem Isavia taldi Samkeppniseftirlitinu óheimilt að grípa inn í með þessum hætti þar sem úthlutunin fer eftir alþjóðlegum reglum.
Síðan hefur málið farið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, héraðsdóm og Hæstarétt sem óskaði eftir áliti EFTA-dómstólsins.
Svokallaður samræmingarstjóri sér um úthlutun flugtíma og samkvæmt reglugerð um úthlutun afgreiðslutíma ber honum að vera sjálfstæður í störfum og má hvorki taka við fyrirmælum frá rekstraraðila flugvallar né heldur má hann skipta sér af úthlutuninni.Samræmingarstjórinn hér á landi er Frank Holton frá danska félaginu Airport Coordination Denmark (ACD).
Niðurstaða EFTA dómstólsins er sú að stjórnvöldum sé óheimilt að beina tilmælum til samræmingarstjóra. Þá segir að það myndi engum tilgangi þjóna að beina fyrirmælum til framkvæmdastjórnar flugvallar, en það mun vera vegna þess að hún hefur ekki áhrif á úthlutunina. Hins vegar mega samkeppnisyfirvöld beina tilmælum sínum til flugfélaga. Líkt og að framan greinir beindi Samkeppniseftirlitið tilmælum sínum til Isavia, rekstraraðilans í þessu máli.
Hlynur segir Samkeppnisyfirvöld til dæmis mega beina tilmælum til flugfélaga eftir samruna þar sem yfirtökufélagið nær í kjölfarið yfirburðarstöðu á flugvellinum. „Þegar verið er að misnota markaðsráðandi stöðu geta yfirvöld fyrirskipað að tilteknir afgreiðslutímar verði látnir af hendi,“ segir hann. „En þetta á ekki við um úthlutunina sjálfa sem er í höndum samræmingarstjóra og er ekki matskennd á nokkurn hátt,“ segir hann.
Þá segir hann samkeppnisreglur ekki byggja á því að menn fái ákveðna tíma, heldur eigi þeir að fá ákveðna aðstöðu við flugvöllinn. „Þetta varðar flugleiðir og aðgang. Flugfélög eiga ekkert rétt á afgreiðslu á ákveðnum tíma,“ segir Hlynur. „Við höfum haft áhyggjur af niðurstöðunni vegna þess að hún hefði getað haft alvarlegar afleiðingar. Þessi reglugerð gildir á öllum flugvöllum í Evrópu og staðan hefði getað orðið sú að flugfélög sem annars hefðu viljað fljúga til landsins hefðu sleppt því vegna þess að óvissa ríkti um flugtímann,“ segir hann. „Flugmarkaðurinn hefur fylgst grannt með málinu og hvort Keflavíkurflugvöllur myndi fylgja þessum sameiginlegu reglum.“
Aðspurður hvaða úrræði standi þeim flugfélögum til boða sem telja á sig hallað hvað flugtíma varðar, segir hann menn einfaldlega þurfa að sækja um ákveðna tíma og að flugfélög vinni sig smám saman upp og nái þar fótfestu. „Dæmi um flugfélag sem er að beita þessari reglugerð með mjög áhrifaríkum hætti er EasyJet sem hefur aukið umsvif sín töluvert og eru að sjúga upp öll laus pláss.“
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að EFTA dómstóllinn hafi með álitinu staðfest heimild samkeppnisyfirvalda og að þau geti haft afskipti af samkeppnishindrunum sem leiða af úthlutun afgreiðslutíma. „Með dóminum er því slegið föstu að svonefndur hefðarréttur á afgreiðslutímum komi ekki í veg fyrir íhlutun samkeppnisyfirvalda. Á grundvelli hefðaréttar hafa flugfélög sem áður nutu mikilla forréttinda haft yfir að ráða mikilvægustu afgreiðslutímunum,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins. „Í málinu var því haldið fram að flugfélög eigi óskoraðan rétt á því að halda afgreiðslutímum sem þau fá úthlutað á grundvelli hefðarréttar, þ.e. hafa áður sýnt fram á 80% nýtingu á úthlutuðum afgreiðslutímum. Af dómi EFTA-dómstólsins leiðir að samkeppnisyfirvöld geta engu að síður gripið til aðgerða í slíkum tilvikum.“
Líkt og segir í niðurstöðu dómsins væri samkeppnisyfirvöldum þá heimilt að beina fyrirmælum til þeirra fyrirtækja sem hlut eiga að máli ef slíkt úrræði telst nauðsynlegt.