Dómarar við EFTA dómstólinn hafa sent frá sér ráðgefandi álit varðandi mál Wow air um túlkun reglugerða á úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum. Telja dómararnir að hvers konar íhlutun opinberra yfirvalda yrði að vera rökstudd með vísan í reglugerð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðu EFTA-dómsins.
„Með dómi sem kveðinn var upp í dag svaraði EFTA-dómstóllinn í flýtimeðferð spurningum sem Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði til hans varðandi túlkun á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 95/93 frá 18. janúar 1993 um sameiginlegar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á bandalagsflugvöllum.
Wow air og Icelandair eru flugfélög sem stunda áætlunarflug til og frá Íslandi. Isavia er opinbert hlutafélag sem rekur Keflavíkurflugvöll, en flugvöllurinn er með skammtaða afgreiðslutíma í samræmi við fyrrnefnda reglugerð.
Í kjölfar kvörtunar frá Wow air ákvað Samkeppniseftirlitið í nóvember 2013 að fyrirkomulag við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli hefði skaðleg áhrif á samkeppni og beindi þeim fyrirmælum til Isavia að Wow air yrðu veittir tilteknir afgreiðslutímar fyrir sumaráætlun 2014.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þá ákvörðun úr gildi í febrúar 2014. Taldi áfrýjunarnefndin að ákvörðuninni hefði ekki átt að beina að Isavia þar sem samræmingarstjóri flugvallar bæri einn ábyrgð á úthlutun afgreiðslutíma. Wow air fór fram á ógildingu ákvörðunar áfrýjunarnefndarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Héraðsdómur sendi dómstólnum í kjölfarið beiðni um ráðgefandi álit um stöðu samræmingarstjóra og hvort opinberir aðilar mættu hafa afskipti af úthlutun afgreiðslutíma á grundvelli samkeppnissjónarmiða.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að í reglugerðinni væri sú krafa gerð til EES-ríkja að þau skipuðu hæfan samræmingarstjóra sem væri óháður öllum hagsmunaaðilum, bæði að lögum og í reynd. Svo framarlega sem þessum kröfum væri fullnægt væri það á forræði EESríkisins að ákveða hver staða samræmingarstjórans væri í landsrétti.
Dómstóllinn taldi jafnframt að kvörtunarferlið sem mælt væri fyrir um í reglugerðinni væri hvorki ófrávíkjanlegt né því lýst með tæmandi hætti.
Í reglugerðinni er kveðið sérstaklega á um að ákvæðið sjálft sé með fyrirvara um málskot samkvæmt landslögum og einnig að reglugerðin skuli ekki hafa áhrif á heimildir opinberra yfirvalda til að krefjast þess að afgreiðslutímar séu færðir á milli flugrekenda og til að stjórna hvernig þeim er úthlutað í samræmi við innlend samkeppnislög eða samkeppnisreglur EES-réttar. Af þeim sökum mætti beina kvörtunum á grundvelli samkeppnissjónarmiða beint til innlendra samkeppnisyfirvalda.
Hins vegar taldi EFTA-dómstóllinn að markmið reglugerðarinnar gæfi til kynna að hvers kyns íhlutun opinberra yfirvalda í úthlutun afgreiðslutíma milli flugfélaga yrði að vera studd ákvörðun þar sem bent væri á tiltekin áhyggjuefni á grundvelli samkeppnishamla, misnotkunar á markaðsráðandi stöðu eða reglna um samruna fyrirtækja.
Að lokum áleit EFTA-dómstóllinn að fyrirmælum um úthlutun afgreiðslutíma ætti að beina til flugrekenda en ekki samræmingastjóra eða framkvæmdastjórnar flugvallar.
Benti dómstóllinn á að ólíkt því sem við ætti um upphaflega úthlutun afgreiðslutíma, sem samræmingastjórinn bæri einn ábyrgð á, útilokaði reglugerðin ekki að afgreiðslutímar væru færðir eftir á. Þar af leiðandi væri yfirvöldum EES-ríkis heimilt að beina fyrirmælum til þeirra fyrirtækja sem hlut ættu að máli, ef slíkt úrræði teldist nauðsynlegt samkvæmt samkeppnisreglum landsréttar eða EES-samningsins,“ segir segir í fréttatilkynningu frá EFTA-dómstólnum.