Aukin útgjöld lenda á viðskiptavinum

Upplýsingafulltrúar bankanna segir erfitt árferði ástæðuna fyrir hærri vaxtamun.
Upplýsingafulltrúar bankanna segir erfitt árferði ástæðuna fyrir hærri vaxtamun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukin skattheimta, aukinn rekstrarkostnaður og auknar eiginfjárkröfur valda þrýstingi til hækkunar á vaxtamun bankanna að sögn upplýsingafulltrúa viðskiptabankanna þriggja.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is í morgun lækkuðu viðskiptabankarnir þrír vexti sína í kjöl­far lækk­un­ar stýri­vaxta í nóv­em­ber en juku hins veg­ar vaxtamun­inn. Inn­lán skila því minni ávinn­ingi og út­lán lækka ekki eins mikið og efni standa til. Af­leiðing­arn­ar eru þær að heim­il­in í land­inu verða af hundruðum millj­óna króna.

Seðlabank­inn lækkaði stýri­vexti úr 6% í 5,75% þann 5. nóv­em­ber sl. en þeir höfðu áður verið óbreytt­ir í um tvö ár. Þá voru stýrivextir lækkaðir um 0,5 prósentur til viðbótar í gær.

Skattahækkanir leiða til hærri vaxtamunar

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir það vera rétt að vaxtamunur samkvæmt vaxtatöflu Landsbankans hafi farið hækkandi að undanförnu.  Skýringuna á því segir hann blasa við, þar sem Alþingi hafi hinn 31. desember 2013 samþykkt breytingar á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki sem kveða á um að sum þeirra verði að greiða árlega skatt sem reiknast 0,376% af skattalegu bókfærðu virði skulda umfram 50 milljarða króna. „Þessi auknu útgjöld eru ekki frádráttarbær frá tekjuskatti og valda, að öðru óbreyttu, þrýstingi til hækkunar á vaxtamun,“ segir Kristján og bendir á að skatturinn sem um ræðir hafi hækkað um 805% milli ára.

 Fleiri áhrifaþættir en stýrivextir

Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka segir stýrivexti Seðlabanks vera stóran áhrifaþátt hvað varðar vaxtabreytingar bankans. „Hins vegar eru aðrir áhrifaþættir sem einnig stýra því hvaða vexti bankinn getur boðið viðskiptavinum sínum hverju sinni, t.a.m. rekstrarkostnaður,  aukin skattheimta, auknar eiginfjárkröfur og almennar rekstrarhorfur,“ segir hún og bætir við að við vaxtabreytingar sé horft til allra þessara þátta.

Aðrir þættir skipta meira máli

„Miklar skattahækkanir undanfarinna ára og tilkoma bankaskattsins sem fellur ekki á tekjur eða afkomu banka heldur skuldir hans kalla á aukinn vaxtamun þar sem fjármögnunarkostnaður bankans eykst,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka. Hann segir fjölmarga áhrifaþætti hafa áhrif á vaxtaákvarðanir bankans til viðbótar við vaxtaákvarðanir Seðlabankans, sem vissulega hafa mikil áhrif á óverðtryggð inn- og útlán til skamms tíma. „Og vissulega er það svo að  lækkun stýrivaxta ein og sér þarf ekki að fela í sér breytingu á vaxtamun, þar skipta fjölmargir aðrir þættir meira máli. Til dæmis hver þróun vaxtamunar viðkomandi lánastofnunar hefur verið undanfarin misseri,“ segir hann.

Þá segir hann rétt að horfa til lengra tímabils til að fá betri heildarmynd. „Árið 2012 var reiknaður vaxtamunur bankans 3,4% en á árinu 2013 og það sem af er ári 2014 er hann hins vegar 2,9%. Þarna spila fjölmargir þættir saman, t.d. hefur lægri veðbólga umtalsverð áhrif á þessa lækkun vaxtamunar,“ segir Haraldur.

Frétt mbl.is: Heimilin verða af hundruðum milljóna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK