Gjaldeyrishöftin hamla vexti Karolina Fund

Karolina Fund
Karolina Fund

Ingi Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Karolina Fund, segir gjaldeyrishöftin á Íslandi gera hópfjármögnunarvefsíðunni mikinn óleik. „Þau gera það að verkum að við getum ekki tekið inn erlend verkefni þrátt fyrir það að þau standi í röðum og bíði eftir að fá að komast inn,“ útskýrir hann. „Þetta er alveg skelfilegt fyrir okkur því við erum að fá ágætis athygli erlendis frá og fyrirspurnir reglulega, en getum ekki sinnt neinu því við erum læst í þessu járntjaldi.“

Hann segir stærstu áskorunina núna að komast framhjá þessari hindrun á einhvern hátt. En það geti reynst flókið. „Það besta væri að nota alþjóðlega lausn hannaða fyrir hópfjármögnunarsíður, en það er aldrei neinn að sýsla með íslenskar krónur svo við þyrftum þá að flytja fyrirtækið til útlanda og stofna nýtt þar. Ég veit ekki hvernig við ættum að gera þetta. Þetta er mjög hamlandi fyrir okkur.“

Hann segir það ekki koma til greina að loka á íslenska markaðinn, og því sé flækjustigið mikið. „Við erum mjög stolt af því að vera fædd og uppalin hér, því lista- og menningarlíf á Íslandi er heimsþekkt í ákveðnum hópum. Við erum mjög stolt af því að vera á þessum grasserandi stað þar sem hugarafl er uppspretta, ekki bara listrænna verka heldur líka peninga. Þar sem fólk býr til vinnu með hugaraflinu.“

Viðskipti í gegnum hópfjármögnunarsíður geta verið ólögleg

Þá segir hann viðskipti í gegnum síður eins og Kickstarter og Indiegogo geta verið ólögleg fyrir íslenska aðila. „Ef íslenskur aðili fer til dæmis inn á Kickstarter og ætlar að safna þar og svo fer annar íslenskur aðili inn og ætlar að veita pening í gegnum gjaldeyrisviðskipti þá er það ólöglegt. Tveir íslenskir aðilar mega í raun ekki eiga þess konar viðskipti.“

Ingi segir það hræðilegt fyrir Íslendinga að vera í þeirri stöðu að mega ekki nota til dæmis Kickstarter. „Þetta heldur verulega aftur að ákveðnum aðilum. Það eru fullt af einstaklingum sem hafa farið með verkefni á Kickstarter og Indiegogo undanfarið en hafa ekki hugmynd um að þeir séu að brjóta lög. Það er alveg hræðileg tilhugsun.“

Þá segir hann Karolina Fund ekki geta orðið mjög stórt fyrirtæki, fyrr en það komist út fyrir landsteinana. „Okkar stóra áskorun núna er hvernig við eigum að gera það. Við viljum það klárlega en á sama tíma viljum við ekki yfirgefa Ísland. Menningarsamfélagið á Íslandi er svo samheldið og gróskumikið svo það kemur ekki til greina. En gjaldeyrishöftin gera okkur þetta mjög erfitt fyrir“

Ingi Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Karolina Fund.
Ingi Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Karolina Fund.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK