Gunnari Nelson ráðlagt að flytja út

Gunnar Nelson
Gunnar Nelson mbl.is/Árni Torfason

Gunnar Nelson vill halda starfseminni í kringum sig á Íslandi að sögn föður hans sem segir þó marga hafa ráðlagt honum að flytja lögheimilið erlendis þar sem skattar eru hagstæðari og ívilnanir fyrir íþróttamenn eru gjarnan í skattalögum.

Gunnar og faðir hans, Haraldur Dean Nelson, hafa stofnað samlagsfélagið Nelson slf. Að sögn Haraldar á félagið að halda utan um ýmsan kostnað er tengist Gunnari. „Það er bara ýmislegt sem er betra að hafa í fyrirtæki en hjá einstaklingi,“ segir hann. Þá segist hann viðbúinn því að starfsemin í kringum Gunnar verði ennþá umfangsmeiri þegar fram líður og bætir við að félagið sé liður í að halda starfseminni á Íslandi. „Honum hefur verið margráðlagt að færa starfsemina erlendis og það eru margir atvinnumenn sem gera það. Hann vill hins vegar vera á Íslandi og greiða skatta sína og skyldur hér á landi,“ segir Haraldur.

 Háir skattar og gjaldeyrishöft

Aðspurður hvers vegna honum sé ráðlagt að færa sig úr landi segir hann háa skatta og gjaldeyrishöft vera helstu ástæðurnar. „Einfaldir hlutir líkt og að greiða erlendum þjálfurum eða hornamönnum verða flóknir. Þú getur ekki bara lagt inn á reikninginn þeirra,“ segir hann. Þá segir hann alls kyns reglur varðandi skattaafslætti fyrir íþróttamenn tíðkast annars staðar. „En Gunnar er mjög tengdur landi og þjóð og vill hvergi annars staðar vera,“ segir hann.

Endurnýjaði ekki samninginn við CCP

Hann segir Gunnar hafa ágætar tekjur af UFC bardögunum en segir það þó ekkert í líkingu við það sem þekkist til dæmis í fótbolta eða hnefaleikum. „Það eru margir sjómenn á Íslandi með hærri laun en Gunnar,“ segir Haraldur. „En ef þú nærð meistaratitil fer þetta að telja í hærri tölum,“ segir hann.

Þá segir hann styrktarsamninga einnig skipta miklu máli. Gunnar gerði í febrúar á síðasta ári samstarfssamning við CCP en Haraldur segir samninginn ekki hafa verið endurnýjaðan og er Gunnar því með lausan samning. „Gunnar er þó bara rólegur og vill ekki hlaupa á eftir hverju sem er,“ segir hann. Novator hefur þá einnig verið styrktaraðili Gunnars í mörg ár og hóf að styrkja hann löngu áður en hann varð þekktur að sögn Haraldar.

Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars Nelson.
Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars Nelson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Gunnari hefur verið ráðlagt að flytja starfsemi sína erlendis.
Gunnari hefur verið ráðlagt að flytja starfsemi sína erlendis.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK