Netgíró kallaði fyrir mistök eftir lánshæfismati Creditinfo á kennitölum viðskiptavina sinna. Þá var lánshæfismat einnig sótt á aðila sem ekki hafa nýtt sér þjónustuna. Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo hefur öllum gögnum nú verið eytt.
Í október voru yfir þrjátíu þúsund manns skráðir hjá Netgíró.
Creditinfo mun kalla eftir úttekt og atvikaskýrslu á því sem átti sér stað og brugðist verður við með viðeigandi hætti. Þá segir Creditinfo að atvik sem þetta hafi aldrei komið upp og því ráðist viðbrögðin einfaldlega af útkomu skýrslunnar.
Fram kemur á vefsíðu Netgíró að mistökin urðu við keyrslu kerfis á vegum þeirra og segir Creditinfo að um kerfisvillu hafi verið að ræða. Kallað var eftir lánshæfismati Creditinfo á kennitölum viðskiptavina sem átti ekki að kalla eftir en lánshæfismatið er notað til að endurmeta úttektarheimildir viðskiptavina Netgíró. „Því miður var lánshæfismat sótt á einhverja aðila fyrir mistök, t.d. skráða viðskiptavini sem hafa ekki nýtt sér þjónustu Netgíró. Á þessu biðjumst við innilegrar afsökunar,“ segir á vefsíðu Netgíró og jafnframt í tölvupósti sem sendur var til viðskiptavina.
„Um leið og kerfisvillan kom í ljós voru allar keyrslur tafarlaust stöðvaðar. Villan var lagfærð og gögnum eytt. Við viljum taka fram að uppflettingin hefur engin áhrif á lánshæfismat Creditinfo og engar upplýsingar um innihald lánshæfismatsins er miðlað til okkar öðru en lánshæfisflokki,“ segir þá einnig.
Þegar viðskiptavinur skráir sig fyrir þjónustu Netgíró samþykkir hann skilmála fyrirtækisins þar sem þeim er veitt heimild til að kalla eftir lánshæfismati til að meta úttektarheimildir hverju sinni. „Aftur á móti stóð ekki til að endurmeta heimildir á viðskiptavini sem hafa ekki nýtt sér þjónustuna áður og þar liggja mistök okkar,“ segir í tilkynningu Netgíró.
Eru þeir sem vilja óvirkja aðganginn sinn eða kannast ekki við að hafa stofnað til aðgangsins beðnir um senda línu á netgiro@netgiro.is eða hafa samband í síma 4 300 330.