Hefja þarf undirbúning að sölu á hlutabréfum í Landsbankanum snemma á nýju ári sé ætlunin að selja hluti í bankanum næsta haust eins og stjórnvöld hafa boðað, að mati Steinþórs Pálssonar bankastjóra. Slíkur undirbúningur taki alltaf sex til níu mánuði.
„Ég teldi farsælast að fá öflugan erlendan fjárfestingarbanka til þess að koma að málum og vera ráðgefandi fyrir ríkið í þessari sölu, sem og að hafa eftirlit með því að undirbúningur og framkvæmd bankans sé eins og best verður á kosið,“ segir Steinþór í viðtali um þetta mál í ViðskiptaMogganum í dag.
Hann segir Landsbankann oft notaðan í pólitískum tilgangi, þegar koma þarf höggi á pólitískan andstæðing. Þá er látið eins og bankanum sé stjórnað af stjórnmálamönnum. „Á meðan Landsbankinn er jafn stór ríkiseign og raun ber vitni verður þetta svona og við þurfum líklega að sætta okkur við það.“