Gamli Landsbankinn (LBI) hefur greitt breska ríkinu 1,36 milljarða punda, rúma 268 milljarða króna, af Icesave skuld bankans við breska skattgreiðendur sem áttu Icesave-reikninga hjá bankanum. Um er að ræða 85% af því fé sem breska ríkið greiddi þeim hundruðum þúsunda Breta sem glötuðu sparnaði sínum við hrun bankans.
Í frétt Telegraph um málið í gær kemur fram að fjármálaráðherra Bretlands, Alistair Darling, hafi í kjölfar þess að íslenska ríkið neitaði að greiða bætur til þeirra 230 þúsund Breta sem áttu fé inn á Icesave-reikningum, neyðst til þess að greiða 4,5 milljarða punda úr opinberum sjóðum í Bretlandi til þeirra sem áttu fé inni á Icesave-reikningum. Með þessu hafi verið hægt að koma í veg fyrir hrun fleiri banka í Bretlandi.
Greiðslan nú, upp á 1,36 milljarð punda, er sú síðasta af fimm sem LBI greiðir til breska ríkisins og hefur breska ríkið nú endurheimt 3,82 milljarða frá þrotabúi Landsbankans.