Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að greiða fyrirfram hluta lána frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sem fengin voru í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda en sú áætlun var studd af AGS. Að greiðslunni lokinni hafa stjórnvöld endurgreitt 83% af láninu frá AGS.
Um er að ræða endurgreiðslur að jafnvirði um 50 milljjarða króna (275 milljónir SDR) sem voru upphaflega á gjalddaga á árinu 2015, að því er segir í tilkynningu á vef Seðlabanka Íslands. Heildarfjárhæð lánsins frá AGS nam um 253 ma.kr. (1.400 milljónum SDR). Eftirstöðvar lánsins eftir þessa fyrirframgreiðslu eru um 43 ma.kr. (237 milljónir SDR).
„Ákvörðunin um fyrirframgreiðslu er tekin í tengslum við skuldastýringu sem miðar að því að greiða niður lán til skemmri tíma. Við ákvörðunina er tekið mið af tiltölulega rúmri lausafjárstöðu Seðlabanka Íslands, meðal annars vegna inngripa á innlendum gjaldeyrismarkaði. Endurgreiðslan hefur áhrif á skuldir Seðlabanka Íslands en ekki á skuldir ríkissjóðs vegna þess að AGS-lánið var tekið af Seðlabankanum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans dregst saman sem nemur þessari fjárhæð. Stærð forðans í lok nóvember nam um 566 ma.kr.“