Gífurlegur munur á kostnaðinum

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Nýjar tegundir skammtímalána hafa skotið upp kollinum á Íslandi á síðustu árum og er nú ásamt hefðbundnum yfirdrætti eða skuldabréfi í banka hægt að taka smálán eða veðlán. Ekki er því ekki úr vegi að skoða hvaða leið sé hagstæðust í þessum efnum og hvers konar lán beri mestan kostnað.

Innheimtuaðgerðir lánafyrirtækja eru mismunandi og getur því kostnaður við lántöku orðið annar sé lánið ekki greitt á gjalddaga. Til dæmis eru smálán sett í innheimtu í tvennu lagi þannig að sérstakur innheimtukostnaður leggst á lánsfjárhæðina sjálfa auk þess sem kostnaður er lagður á svokallað flýtigjald. Á dögunum var sagt frá 20 þúsund króna láni hjá smálánafyrirtæki sem orðið var að 46 þúsund krónum tveimur mánuðum eftir gjalddaga. Hjá veðlánafyrirtækinu Kaupum gull er hinn veðsetti hlutur hins vegar hirtur sé ekki staðið skil á greiðslum á réttum tíma og fer lánið því ekki í sérstaka innheimtu.

12,25% vextir á yfirdrætti

Vextir á hefðbundnum yfirdráttarlánum eru frá 8,5 prósent til 12,25 prósent. Hjá Íslandsbanka og Arion banka eiga námsmenn til dæmis kost á yfirdráttarláni er bera 8,5 prósent vexti. Vextir almennra yfirdráttarlána eru hins vegar 12,25 prósent hjá Íslandsbanka en á bilinu 11,1 til 12,2 prósent hjá Arion banka. Vextir á yfirdráttarláni greiðast samkvæmt notkun einu sinni í mánuði og fylgir enginn annar kostnaður nema mögulega heimildargjald af yfirdrætti.

Sé reiknað með 12,25 prósent vöxtum greiðir einstaklingur með 100 þúsund króna yfirdrátt 12.250 krónur í vexti eða um 1.020 krónum í hverjum mánuði.

54% ársvextir hjá veðlánafyrirtæki

Hjá veðlána­fyr­ir­tæk­inu Kaup­um gull er hægt að fá lánaðar allt að 100 millj­ón­ir króna gegn trygg­ingu í skart­grip­um, hús­gögn­um eða ýmsu öðru. Lánið er veitt til þriggja mánaða á 4,5% vöxt­um á mánaðar­grund­velli, eða 54% árlegum vöxtum. Vext­irn­ir koma mánaðarlega til greiðslu og end­ur­nýj­ast lánið við hverja vaxta­greiðslu. Við fyrstu greiðsluna er lánið því aft­ur orðið til þriggja mánaða og hægt er að halda þessu áfram uns lán­taki á þess kost að greiða lánið til baka að fullu en það er gert í einni greiðslu.

Sé tekið 100.000 króna lán koma 4.500 krónur til greiðslu mánaðarlega, eða 54.000 krónur yfir allt árið og er því ljóst að mun hagstæðara er að taka yfirdráttarlán.

372% ársvextir hjá smálánafyrirtækjum

Annað form skammtímalána eru smálánin, en þar er hægt að fá að hámarki 20.000 króna lán með því að senda smáskilaboð. Þurfi fólk hærri upphæð er hægt að senda fleiri smáskilaboð eða leita til fleiri en eins smálánafyrirtækis. Kostnaðurinn við 20.000 lán í 30 daga eru 734 krónur auk 5.500 króna flýtiþjónustu, sem greiða þarf fyrir vilji lántaki fá lánið afgreitt innan átta daga en gera má ráð fyrir að svo sé staðan í tilfelli flestra þeirra sem þurfa á smáláni að halda. Samkvæmt þessu er heildarkostnaður við lántökuna 26.243 krónur. Eigi einhver kost á láni í einn mánuð er nemur 100 þúsund krónur nemur aukalegur kostnaður þar með 31.170 krónum eða upp á 31% sem samsvarar 372% ársvöxtum. Eru smálánin þannig mun óhagstæðari en aðrir möguleikar.

Yfirdrátturinn hagstæðari

Einnig hægt að taka skuldabréfalán og er í raun enginn lágmarkstími á þeim lánum. Sé lánið hins vegar einungis hugsað til skemmri tíma getur verið óhagkvæmt að greiða meðfylgjandi kostnað, sem er lántökugjald, skjalagerðargjald og tilkynningar- og greiðslugjald við gjalddaga. Vextir af óveðatryggðu skuldabréfi í Arion banka eru 6,65% en ofan á það kemur vaxtaálag sem fer eftir tryggingum og viðskipta. Þá er einnig greitt lántökugjald sem er frá 1,4% til 2% auk skjalagerðargjalds er nemur 5.700 krónum og tilkynningar- og greiðslugjald sem nemur 120 til 595 krónum, allt eftir því hvort skuldfært er eða greitt með greiðsluseðli.

Ef til dæmis er tekið 100 þúsund króna skuldabréfalán hjá Arion banka með einum gjalddaga að mánuði liðnum nemur heildarkostnaðurinn 108.828 krónum samkvæmt fyrrgreindum viðbótarkostnaði. Heildarlántökukostnaður myndi nema 16.528 krónum en útborgað andvirði lánsins væri 92.300 krónur. Er því ljóst að skuldabréfalánið er óhagstæðari kostur en yfirdráttarlánið.

Frétt mbl.is: Ekkert lánshæfismat og engum neitað

Frétt mbl.is: Kostnaður á kostnað ofan

Sé litið til heildarkostnaðar við töku á smáláni er ársvextirnir …
Sé litið til heildarkostnaðar við töku á smáláni er ársvextirnir um 372%. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Auglýsing um veðlánin sem bera 54% ársvexti.
Auglýsing um veðlánin sem bera 54% ársvexti.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK