Rúmum 21 milljarði króna var lýst í þrotabú eignarhaldsfélagsins S44., sem áður hér JV ehf. Félagið hélt utan um útgerð feðganna Jakobs Valgeirs Flosasonar og Flosa Valgeirs Jakobssonar.
Félagið var úrskurðað gjaldþrota í september 2012 en hætti rekstri í janúar 2009 og voru bæði skip og aflaheimildir seldar úr félaginu yfir í annað félag í eigu Jakobs Valgeirs.
Alls fengust greiddar um 97 milljónir króna upp í kröfur við skiptin sem var lokið þann 17. nóvember sl. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag.
Jakob Valgeir tengist nokkrum málum sem urðu til í kjölfar bankahrunsins en samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis námu áhættuskuldbindingar Jakobs Valgeirs ehf. og tengdra félaga um 31,8 milljarði króna í október 2008.
Jakob Valgeir var þá meðal annars eigandi og stjórnarformaður félagsins Stím, sem Glitnir lánaði 19,6 milljarða króna til kaupa á hlutabréfum bankans. Sérstakur saksóknari hefur haft málefni félagsins til rannsóknar frá árinu 2009 en í febrúar voru Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Glitni, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital, ákærðir vegna hlutdeildar sinnar í málinu.
Skiptum á Stím ehf. var lokið í september 2013 og fengust greiddar 15,2 milljónir upp í 24 milljarða kröfur. Þá átti Jakob Valgeir einnig félagið Ofjarl ehf. en skiptum á því var lokið í nóvember á síðasta ári þar sem um 40 milljónir fengust greiddar upp í 2 milljarða króna kröfur.