Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, birti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu í dag þar sem hann óskar eftir lífeyrissjóði sem er tilbúinn til að fjárfesta í byggingu mannsæmandi húsnæðis fyrir aldraða. „Húsnæði þar sem eldri borgarar geta notið ævikvöldsins í stað þess að vera bara númer á blaði,“ segir í auglýsingunni.
Í samtali við mbl segir Helgi það vera lágmarkskröfu að fólk hafi aðgang að sinni eigin snyrtingu þegar komið sé á efri aldur. „Við eigum nóg af peningum í lífeyrissjóðunum þannig að ég er ekkert að biðja um að einhver annar borgi fyrir þetta,“ segir hann og vísar til þess að gert sé ráð fyrir að eignir lífeyrissjóðanna nemi um 2.800 milljörðum í lok ársins. „Það er lágmarkskrafa að fólk eigi kost á smánæði eftir áratugalanga veru á þessu landi,“ segir hann.
Hann segir húsnæðið hvorki þurfa að vera stórt né íburðarmikið til að uppfylla sanngjarnar kröfur um þægindi og einkalíf. Þá bendir hann á að lífeyrissjóðum hafi verið heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði frá árinu 2011 en þrátt fyrir það hafi enginn sjóður fjárfest í húsnæði fyrir aldraða „þó ekki þyrfti nema brotabrot af tekjum þeirra til að byggja 50 íbúðir á ári“.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi vekur athygli á málinu en á síðasta ári birti hann einnig auglýsingar í blöðum um sama efni. Aðspurður um viðbrögð við fyrri auglýsingum segir hann forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa sakað hann um að vera að auglýsa nammið sitt í kringum jól og páska. Því hafi hann passað sig á að birta auglýsinguna eftir jól. „Mig langar að heyra hvað þeir segja núna,“ segir hann glettinn.
„Pabbi minn tók upp á því að lifa í 25 ár eftir sjötugt og þegar ég var að heimsækja hann kviknaði á perunni; að ég yrði einhvern tímann gamall og að þá yrði nú gott að geta fengið sér kaffibolla í næði og átt rauðvín inni í skáp ef einhver kæmi í heimsókn,“ segir hann. „Flestir gleyma þessu vandamáli þar til þeir þurfa að takast á við það og fara að leita að plássi sem einfaldlega er ekki til. Ég er bara að benda á að það sé hægt að leysa þetta án þess að allt fari á hliðina og einfalt er að gera það hjá lífeyrissjóðunum,“ segir Helgi.
Helgi safnar nú undirskriftum á síðunni okkarsjodir.is en í janúar mun hann kynna fjölda undirskrifta og ræða við stjórnendur lífeyrissjóðanna.