Slitastjórn Glitnis hefur kært álagningu bankaskattsins til Ríkisskattstjóra að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnarinnar. Hún segist engin viðbrögð hafa fengið og veit ekki hvar málið er statt innan embættisins.
Þá sagðist Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, ekki tjá sig um einstök mál sem eru til meðferðar innan embættisins og gat hvorki staðfest að kæra hefði borist né gefið upp hvenær von væri á svari.
Skatturinn var lagður á í nóvember og segir Steinunn að kæran hafi farið frá Glitni í lok sama mánaðar. Samkvæmt tekjuskattslögum er kærufrestur til ríkisskattstjóra 30 dagar frá dagsetningu auglýsingar um að álagningu sé lokið. Ríkisskattstjóri skal þá að jafnaði kveða upp sinn úrskurð innan tveggja mánaða frá lokum þess frests og má samkvæmt því ætla að von sé á niðurstöðu í lok janúarmánaðar eða febrúar. Þeim úrskurði má síðan skjóta til yfirskattanefndar innan þriggja mánaða.
Bankaskatturinn var lögfestur á árinu 2010 en var hins vegar hækkaður verulega í fjárlagafrumvarpi síðasta árs, eða úr 0,041% í 0,145%. Skatturinn var þá hækkaður enn frekar í meðferð þingsins, eða í 0,376%. Þá var undanþága fyrirtækja í slitameðferð til að greiða skattinn afnumin í desember 2013. Var þetta gert til þess að standa undir áformum ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar á verðtryggðum íbúðalánum.
Í umsögn Glitnis um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins 2014 segir að skattlagningin sé hvorki málefnaleg né rökrétt. „Það fyrirkomulag frumvarpsins að gera skuldir að andlagi skattheimtu er því, að mati Glitnis, algjört fráhvarf frá hefðbundnum meginreglum og viðmiðum skattaréttarins þegar kemur að álagningu skatta.
Þá er bent á að fyrirtækin séu einmitt í slitameðferð vegna þess að þau gátu ekki staðið undir öllum skuldbindingum sínum „auk þess sem þegar liggur fyrir að hluti þessara krafna mun falla niður við lok slitameðferðarinnar þar sem eignir slitabúanna eru ekki nægar
til þess að tryggja fullar endurheimtur.“
Samkvæmt álagningarskrá Ríkisskattstjóra sem birt var þann 31. október greiða fjármálastofnanir mest í skatta og sitja þrír bankar í efstu sætunum; Kaupþing, sem greiðir 14,6 milljarða, Landsbankinn sem greiðir tæpa 13 milljarða og Glitnir sem greiðir tæpa 12 milljarða.
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er áætlað er að tekjur ríkissjóðs af bankaskagltti verði nálægt 39 milljörðum króna fyrir árin 2014 og 2015.