Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, sem rak m.a. Bylgjuna og Stöð 2, hefur fjárfest í fjölmiðlafyrirtækinu Pressunni. Frá þessu var gengið endanlega í gær, að því er fram kemur í frétt á vef Pressunnar.
Sigurður hefur keypt nýtt hlutafé í Pressunni sem var gefið út í tilefni af kaupum félagsins á stærstum hluta hlutafjár í DV ehf. Eftir kaupin á Sigurður G. um 10% hlut í Pressunni.
Aðrir eigendur Pressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson, Arnar Ægisson og AB11 ehf.
Í frétt Pressunnar kemur fram að fleiri aðilar séu þessa dagana að bætast við í hlutahafahóp Pressunnar. Um leið og gengið verður frá því verður uppfærður hlutahafalisti í Pressunni ehf og DV ehf sendur til Fjölmiðlanefndar.
Pressan ehf er móðurfélag Vefpressunnar sem rekur vefmiðlana Pressuna, Eyjuna og Bleikt, sem hafa frá stofnun verið meðal fjölsóttustu vefsvæða á landinu. Þá á Pressan stærstan hluta hlutafjár í DV ehf, sem á og rekur DV og dv.is.