Fyrrum starfsmaður snyrtivörufyrirtækisins Revlon hefur kært forstjóra þess fyrir að hafa mismunað sér á grundvelli trúarbragða auk þess sem hann telur að ómálefnalegar ástæður hafi verið fyrir uppsögn sinni. Hann segist hafa verið rekinn eftir að hafa vakið athygli á öryggisvandamálum innan fyrirtækisins.
Starfsmaðurinn, Alan Meyers, segir forstjórann, Lorenzo Delpani, hafa sakað sig um ljúga til um öryggisbresti innan fyrirtækisins. Meyers var ráðinn til Revlon á árinu 2010 og var yfir vísindadeild fyrirtækisins. Hann segir hinn ítalska Delpani hafa níðst á sér fyrir framan aðra starfsmenn vegna þess að hann væri bæði gyðingur og Bandaríkjamaður.
Í yfirlýsingu frá Revlon segir hins vegar að lögsóknin sé algjörlega tilhæfulaus og að Meyers hafi margoft sýnt dómgreindarskort í starfi.
Meyers segir Delpani hafa sagt Bandaríkjamenn vera smáborgara og skítuga. Þá sagði hann það koma sér á óvart hversu fáir gyðingar væru í yfirmannastöðum innan fyrirtækisins þar sem „gyðingar stæðu alltaf saman“ en stærsti hluthafi fyrirtækisins er gyðingur.
Huffington Post greinir frá þessu.