Auke Lont, stjórnandi norska rafveitufyrirtækisins Statnett segir stutt í samning um lagningu sæstrengs milli Bretlands og Noregs. Vonast hann til að viðræðum við bresku rafveituna, National Grid, ljúki snemma á þessu ári.
Sæstrengurinn verður heimsins lengsti neðansjávar-orkustrengur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Segir Lont að gert sé ráð fyrir að fjárfesting í verkefninu hefjist fljótlega og sæstrengurinn verði kominn í notkun árið 2020. Strengurinn mun kosta á bilinu 1,5 til 2 milljarða evra, jafnvirði um 230 til 310 milljarða króna og á að geta flutt allt að 1.400 megavött af orku. Til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun allt að 690 megavött.