Til stendur að reisa um átta þúsund fermetra vöruhús og skrifstofur heildsölunnar Garra við hlið prentsmiðju Morgunblaðsins að Hádegismóum 1 til 3. Til samanburðar er prentsmiðjan um 7.500 fermetrar að stærð og verður nýja byggingin því nokkru stærri.
Það er félagið Freyr ehf. sem stendur að uppbyggingunni en eigendur þess eru þeir sömu og að Garra, eða Magnús R. Jónsson og Magnús R. Magnússon, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Málið er enn til meðferðar hjá Reykjavíkurborg og gætu hugmyndirnar því tekið einhverjum breytingum.
Lóðirnar tvær verða sameinaðar í eina og á þeim byggðar skrifstofur og vöruhús sem saman verða um 8.000 fermetrar að stærð. Vesturhlið prentsmiðju Morgunblaðsins mun snúa að austurhlið byggingarinnar.
Magnús R. Magnússon, framkvæmdastjóri Garra, reiknar með að framkvæmdir geti hafist í byrjun febrúar ef niðurstaða fæst fljótlega í málið hjá Reykjavíkurborg. Hann segir framkvæmdirnar vera nokkuð kostnaðarsamar en að of þröngt hafi verið orðið um starfsemina í núverandi höfuðstöðvum fyrirtækisins í Lynghálsi. Verður nýja húsnæðið um það bil helmingi stærra.