Atvinnuleysi á Ítalíu hefur náð nýjum hæðum samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag en atvinnuleysið mældist 13,4% í nóvember sem var aukning um 0,2% frá í október.
Atvinnuleysi á meðal ungmenna er einnig hærra en það hefur verið áður og mælist nú 43,9%. Jókst það um 0,6% frá október og 2,4% miðað við nóvember 2013.
Fram kemur í frétt AFP að þetta séu slæmar fréttir fyrir stjórnvöld á Ítalíu sem reyni að koma landinu upp úr verstu efnahagslægð sem það hafi lent í frá síðari heimsstyrjöldinni.