„Bankarnir hegða sér óásættanlega“

Bankarnir hafa allir aukið vaxtamun í kjölfar stýrivaxtalækkana.
Bankarnir hafa allir aukið vaxtamun í kjölfar stýrivaxtalækkana. mbl.is

Vaxtamunur á Íslandi er óeðlilegur og aukning hans þrátt fyrir stýrivaxtalækkanir er óásættanleg fyrir neytendur. Rök Arion banka um hærri íbúðarlánavexti sökum aukins fjármögnunarkostnaðar halda ekki vatni.

Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Juku vaxtamun enn frekar

Arion banki hækkaði um áramótin vexti á verðtryggðum íbúðarlánum. Innlánsvextir voru ekki hækkaðir og jókst þar með vaxtamunur bankans, sem þó hafði áður aukist þrátt fyrir stýrivaxtalækkanir. Reiknaði Hagfræðingur VR það út á dögunum að tekjur bankanna hafi aukist um tæplega milljarð vegna breytinga á vaxtamun í kjölfar lækkunar stýrivaxta, sem nú hafa í tvígang verið lækkaðir og standa í 5,25%. „Ástandið er þannig að sparifjáreigendur eru jafnvel að koma út í mínus vegna vaxta á verðtryggðum innlánum, skattlagningar á vextina og verðbóta,“ segir Vilhjálmur.

Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér í gær segir að vaxtahækkunin hafi verið óhjákvæmileg sökum aukins fjármögnunarkostnaðar. Vilhjálmur gefur ekkert fyrir þau rök og segir bankann einfaldlega ekki getað vísað til þess þegar verið sé að lækka stýrivexti og lausafjárstaða bankanna sé rúm. „Hér er miklu frekar verið að hámarka ágóða bankanna og aukinn fjármögnunarkostnaður er mjög langsóttur hér,“ segir hann.

Hugnast ekki þak á vaxtamun

Vaxtamunur íslenskra banka telst hár í erlendum samanburði og er í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins bent á að samkeppnisstaða bankanna sé ólík því sem er hjá erlendum bönkum. Þá hefur hann aukist enn fremur eftir stýrivaxtalækkanir Seðlabankans þar sem viðskiptabankarnir þrír hafa allir lækkað innlánsvexti á sama tíma og þeir hækka útlánsvexti.

Aðspurður hvort æskilegt gæti verið að lögfesta þak á vaxtamun segist Vilhjálmur ekki telja að svo ætti að gera, eða að það ætti í það minnsta að vera þrautaúrræði.

Bankar borga ekki skatta

Hann segir bankana eiga að hafa það að meginmarkmiði að stunda miðlun fjármagns á sem ódýrastan máta en ekki féfletta viðskiptavini með þessum hætti. Þá bendir hann á að Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu beri að fylgjast með málinu. Hann segir frelsi fylgja ábyrgð og bætir við að bankarnir séu ekki að nota það neytendum til hagsbóta.

Auk þess að vísa til aukins fjármögnunarkostnaðar í tilkynningu sinni vísaði Arion Banki einnig til bankaskattsins, sem er áætlaður tæpir þrír milljarðar króna fyrir árið 2014.

Bankaskatturinn var hækkaður í fjárlögum síðasta árs til þess að standa undir áform­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar um skuld­aniður­fell­ing­ar á verðtryggðum íbúðalán­um. Aðspurður hvort neytendur séu með vaxtahækkunum að fá leiðréttinguna aftur í hausinn svarar Vilhjálmur játandi og segist af þeirri ástæðu hafa greitt atkvæði gegn skattinum. „Það var einfaldlega af þeirri ástæðu að bankar borga ekki skatta. Það er viðskiptavinurinn sem borgar þá,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur gefur ekkert fyrir rök Arion banka um að aukinn …
Vilhjálmur gefur ekkert fyrir rök Arion banka um að aukinn fjármögnunarkostnaður kalli á hærri útlánsvexti sökum rúmrar eiginfjárstöðu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi.
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK