Lyfjafyrirtækið WuXi PharmaTech hefur keypt íslenska lyfjafyrirtækið NextCode á 8,5 milljarða. Fyritækið er afsprengi Íslenskrar erfðagreiningar og dótturfyrirtæki DeCode. Hannes Smárason verður í yfirstjórn sameinaðs fyrirtækis.
Nýja fyrirtækið mun heita WuXi NextCODE Genomics og verður með starfsemi í Kína, Bandaríkjunum og á Íslandi. Auk Hannesar verða aðrir stjórnendur Ge Li, Edward Hu, Jeffrey Gulcher, Hongye Sun og Hákon Guðbjartsson. Gulcher var framkvæmdastjóri Nextcode og Hannes var forstjóri þess áður en hann steig til hliðar árið 2013 vegna ákæru sérstaks saksóknara. Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóri Landspítalans, tók þá við starfinu.
Íslensk erfðagreining kom fyrirtækinu á laggirnar til að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum. WuXi er sams konar fyrirtæki og segir Hannes Smárason í samtali við Yahoo að saman geti fyrirtækin orðið öflugari á heimsvísu.
Ekki náðist í Hannes við vinnslu fréttarinnar.