Þrátt fyrir að árið 2014 og þetta ár muni mikið taka mið af kjarasamningum og afnámi fjármagnshafta, þá er einnig mikið annað sem hefur gerst og þarf að huga að á þessu ári. Þannig er t.d. mikilvægt að horfa til fjárfestingar til framtíðar í nýjum fyrirtækjum og byggja undir útflutningsgeirann. Þetta virðist samhljóma álit þeirra aðila innan framleiðslu- og tæknigeirans sem mbl.is ræddi við í kjölfar áramótanna.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, segir að síðasta ár hafi almennt staðið undir væntingum, sérstaklega í tæknigeiranum. Þannig hafi þetta verið árið sem fólk fór í ríkari mæli að nýta sér allskonar þjónustu á netinu og þó hafi mörg íslensk fyrirtæki gert stóra hluti á árinu þar sem salan á Datamarket hafi staðið upp úr. Stærsti viðburðurinn hafi þó verið eldgosið sem hafi sett náttúruna og manninn í rétt samhengi.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samál, segir að síðasta ár hafi verið bæði jákvætt og neikvætt fyrir áliðnaðinn. Þannig hafi Alcoa Fjarðaál þurft að draga úr framleiðslu annað árið í röð vegna orkuskerðingar og nam framleiðslutapið 9 þúsund tonnum. Rio Tinto Alcan sé á sama tíma langt komið með langsamlega stærstu fjárfestingu á Íslandi frá hruni, upp á 60 milljarða, vegna straumhækkunar á álverið. Norðurál hafi á sama tíma hafið vinnu við fjárfestingaverkefni upp á annan tug milljarða til að auka framleiðni.
Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri Stjörnu-Odda, segir árið hafa verið viðburðaríkt þar sem lítil verðbólga, lækkun stýrivaxta, leiðrétting lána, minnkandi atvinnuleysi og lækkandi olíuverð hafi allt verið stór atriði. Á móti komi að húsnæðisverð haldi áfram að hækka og þannig reynist það ungu fólki erfitt að finna húsnæði við hæfi. „Við þurfum að hafa það í huga að við erum í samkeppni um unga menntaða fólkið okkar,“ segir hann.
Þrátt fyrir húsnæðishækkunina segir Sigmar að árið hafi staðið undir væntingum. „Það hafa skapast tækifæri sem þarf að spila rétt úr.“ Segir hann að ýta þurfi undir að ungir Íslendingar sæki sér menntun og reynslu erlendis, svo þeir geti snúið heim aftur með reynslu og hugmyndir sem hjálpi til við að skapa störf.
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, segir árið ekki hafa verið laust við áskoranir, en að í heild hafi það staðið undir væntingum. „Þróun efnahagsmála var jákvæð og markaðsaðstæður eru að batna,“ segir hún. Hún segir aukna eftirspurn í kísilmálmiðnaði og gagnaverum jákvæða og þá hafi bjartsýni álvera einnig verið mikilvæg.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir átökin í Úkraínu og kreppuna í Rússlandi vera stærstu mál ársins og að þau muni vera fyrirferðarmikil fyrir íslenskan efnahag á komandi misserum. „Erfiðleikarnir á þessum mikilvæga sjávarafurðamarkaði fylgja okkur út næsta ár og lengur, því miður,“ segir hann. Þrátt fyrir erfiðleikana segir Sigurgeir Brynjar að það sé aldrei svartnætti alls staðar og þannig hafi mjöl- og lýsismarkaðurinn verið í góðu lagi.
Í nýsköpunargeiranum segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Innovit, að árið hafi verið mjög jákvætt. Augun hafi opnast hjá stjórnvöldum, fjárfestaumhverfinu og háskólasamfélaginu. Þannig hafi stjórnvöld kynnt nýja vísinda- og nýsköpunarstefnu sem auki fjárveitingar í slík verkefni til muna. Þá sé til umræðu á þingi frumvarp til laga sem heimili lífeyrissjóðum að fjárfesta í auknum mæli í nýsköpunarfyrirtækjum.
Sem erfiðasta mál þessa árs nefndu allir annaðhvort kjarasamninga eða afnám hafta, eða bæði atriðin. Sigurgeir Brynjar nefndi auk þess að efnahagsvandamál Rússlands muni mikið snerta Íslendinga í gegnum sölu á sjávarafurðum þangað, en hann segir að nú eigi íslensk fyrirtæki um sex milljarða útistandandi kröfur þar sem trúlega verði afskrifaðar.
Mikilvægustu mál þessa árs, til viðbótar við kjarasamninga og höftin, voru aftur á móti nokkuð fjölbreytt að mati viðmælenda. Ragnheiður segir t.a.m. að enn séu konur aðeins 30% viðmælenda í fjölmiðlum og það sé nokkuð sem þurfi að gera gagngera breytingu á á árinu. Sigmar og Salóme nefna mikilvægi þess að fjármagna og halda fyrirtækjum hér á landi og Ragna kemur meðal annars inn á aukinn kaupmátt og aga í ríkisfjármálum.
Sigurgeir Brynjar og Pétur nefna aftur á móti stöðugleika í stóru atvinnugreinunum sem þeir starfa í og að óvissu verði fyrst og fremst eytt þar.