Íslenskir og alþjóðlegir fjárfestar munu leggja gagnaveri Verne Global að Ásbrú til um 13 milljarða króna í hlutafjáraukningu. Fjármálastjóri Verne segir fjármagnið vera sem byr í seglinn í uppbyggingu gagnaversins og sér gagnaversiðnaðinn sem fjórðu stoðina undir íslenskt efnahagslíf í framtíðinni.
Gagnaver Verne Global hóf starfsemi í byrjun árs 2012. Isaac Kato, fjármálastjóri Verne Global, segist ekki geta gefið upp heildarraforkunotkun gagnaversins í dag en segir takmarkið vera 100 megavött innan næstu fimm til sjö ára. Hann segir gagnaverið hafa vaxið um nokkur hundruð prósent á síðasta ári og hefur eftirspurnin verið mikil eftir auknu rými.
Gagnaverið samanstendur af tveimur 20 þúsund fermetra byggingum og bendir Isaac á að þær séu líkt og skel utan um starfsemina. Gríðarlega kostnaðarsamt er að koma upp raftækjabúnaði til þess að starfrækja gagnaverið og verður fjármagnið nýtt til þess að fjárfesta í frekari tækjabúnaði. Þótt fjárhæðin er safnaðist í hlutafjáraukningunni sé há, segir Isaac hana ekki vera óvenjulega í gagnaverðsiðnaðinum.
Um fjörtíu starfsmenn vinna hjá Verne Global og starfar meirihluti þeirra í gagnaverinu í Reykjanesbæ. Isaac segir að fleiri starfsmenn verði þá einnig ráðnir í kjölfar hlutafjáraukningarinnar. Þá bendir hann jafnframt á að fjöldi óbeinna starfa myndist með þeim viðskiptum sem gagnaverið færir til landsins og er gróft áætlað að fyrir hvert starf hjá gagnaverinu skapist um tvo til þrjú óbein störf.
Tilkynnt hefur verið um níu fyrirtæki sem nýta sér þjónustu gagnaversins á Ásbrú, en þeirra á meðal eru stórfyrirtæki á borð við BMW. Auk þeirra þjónustar gagnaverið einnig önnur fyrirtæki sem kjósa nafnleynd þar sem gagnavinnsla getur varðað helstu viðskiptaleyndarmál þeirra. „Það eru ekki allir sem vilja segja heiminum hvar þeirra gögn eru vistuð og unnin,“ segir Isaac. „Margir líta því á staðsetninguna sem trúnaðarmál,“ segir hann en bætir þó við að viðskiptavinirnir séu ýmist evrópskir, bandarískir eða íslenskir. Þá getur hann ekki heldur gefið upp hver stærsti viðskiptavinur Verne sé.
Hann segir ríka persónuvernd vera stóran kost við Ísland, ólíkt öðrum löndum þar sem viðskiptavinir geta ekki treyst því að aðgangur að gögnum sé vel varinn. „Persónuverndin er tekin alvarlega á hér á landi og það er kostur fyrir Ísland að hafa afgerandi afstöðu í þeim efnum,“ segir hann.
Ísland hefur þótt afar ákjósanlegur staður fyrir gagnaver og segir Isaac að Verne Global hafi nú sannreynt þá kenningu. Nefnir hann að raforkan sé hvergi eins ákjósanleg, þar sem hún sé áreiðanleg, græn og hagkvæm á Íslandi. Þá er einnig stöðugur og tiltölulega lágur umhverfishiti á Íslandi, sem gerir það mögulegt að byggja upp afar orkusparandi gagnaver með því að nota „ókeypis kælingu“, þ.e. íslenska kuldann. „Ég held að gagnaversiðnaðurinn gæti orðið að fjórðu stoðinni undir íslenskt efnahagslíf; Fiskurinn, álið, ferðamenn og gagnaver. Gagnaversiðnaðurinn er mikill þekkingariðnaður og hentar því vel fyrir Ísland,“ segir Isaac.
Hann segir þá sæstrengi sem þegar eru til staðar vel geta annað þörfum fyrirtækisins. Þeir séu ekki fullnotaðir og ástandið því gott. „Við fögnum þó alltaf nýjum sæstrengjum,“ segir Isaac.
Í hópi fjárfesta eru SÍA II, framtakssjóður í rekstri Stefnis, sem kemur ásamt hópi lífeyrissjóða, nýr inn í hluthafahóp félagsins. Þá tóku einnig stærstu hluthafar Verne Global fyrir hlutafjáraukninguna, Wellcome Trust, Novator Partners, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors, og General Catalyst, einnig þátt í hækkuninni. Arctica Finance var ráðgjafi Verne Global við fjármögnunina.
Frétt mbl.is: Verne Global tryggir sér 13 milljarða