Ákvörðun um að nýta rétt til fæðingarorlofs er tekjutengd og kynbundin og brýnt er að endurreisa fæðingarorlofskerfið til samræmis við upphafleg markmið þess um jafna töku foreldra á fæðingarorlofi. Búið er að skera fæðingarorlofssjóð mikið niður og árangur fyrri ára er að mestu genginn til baka.
Þetta kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á skattadegi Deloitte, SA og VÍ sem fór fram á Grand Hótel í morgun. „Búið er að eyðileggja fæðingarorlofskerfið okkar,“ sagði Þorsteinn á fundinum.
Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með hluta af tryggingargjaldi, sem fyrirtækin í landinu greiða. Þegar tekjuþak foreldris sem ætlaði að nýta sér fæðingarorlof var lækkað úr 575 þúsund krónum á mánuði í 400 þúsund á árinu 2009 voru tekjur sjóðsins ekki skertar á móti. Hlutdeild tryggingargjaldsins sem rann í fæðingarorlofssjóð var þó óbreytt og ríkissjóður nýtti afgang sjóðsins til þess að bæta stöðu sína.
Í fjárlögum ársins 2014 var tekjustofninn hins vegar helmingaður og er sjóðurinn rekinn með tapi í dag þrátt fyrir að réttindi til greiðslna í fæðingarorlofi hafi verið skert mikið. Þá var einnig gengið á uppsafnaðan afgang sjóðsins sem nýttur var til annarra verkefna.
Launaþak fæðingarorlofs er nú 370 þúsund krónur sem er töluvert undir meðallaunum á almennum vinnumarkaði sem voru 556 þúsund krónur á árinu 2013 samkvæmt Hagstofu Íslands. „Það er því orðin fjárhagsleg ákvörðun hjá meginþorra fólks á vinnumarkaði að meta hvort það geti nýtt sér fæðingarorlofið,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl. „Þegar fyrirkomulagið var með tiltölulega rúmum tekjumörkum var það ekki tekjutengd ákvörðun foreldra að nýta sér viðbótarréttinn,“ segir Þorsteinn og vísar til þriggja mánaða orlofsins sem foreldrar geta skipt sín á milli auk grunnréttarins. „Þar af leiðandi er þetta einnig orðin kynbundin ákvörðun þar sem karlar eru að jafnaði með hærri tekjur en konur,“ segir Þorsteinn.
Frá því að réttindi feðra til fæðingarorlofs voru tryggð á árinu 2000 hefur hlutfall feðra sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs aukist mikið. Sá árangur hefur gengið til baka á liðnum árum. Feðrum, sem fengu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, fækkaði til að mynda um
5,3% milli áranna 2009 og 2010. Milli áranna 2010 og 2011 fækkaði þeim enn frekar, eða um 10,2%.
„Við þurfum að endurreisa kerfið og stærsti vandinn er að ríkið hefur tekið um helming markaðra tekna fæðingarorlofssjóðs til annarra nota. Tekjumörkin verða ekki hækkuð án þess að hlutur sjóðsins í tryggingargjaldi verði aukinn á ný eða að það verði hækkað, en það getum við alls ekki fallist á. Ríkissjóður verður að skila þessum fjármunum,“ segir Þorsteinn.