„Fólkið er að hugsa um budduna og kallar eftir lægra verði og er þar af leiðandi tilbúið til að sætta sig við minni þjónustu. Þetta verður því ofan á,“ segir Kristinn Skúlason, rekstrarstjóri Krónunnar.
Tilkynnt var í morgun að Krónan verði opnuð í stað þriggja Nóatúnsverslana. Nóatún í Grafarholti, Hamraborg og Nóatúni munu á næstu mánuðum breytast úr Nóatúni í Krónuna.
Kristinn segir þetta vera þróunina um allan heim og bendir á að fólk sæki orðið frekar í lágverðsverslanir. Hann segir þróunina eftir fjármálakreppuna hafa haft áhrif á afkomu Nóatúnsverslananna. „Þetta tekur á þjónustuverslanir og við reynum að vera raunhæfir í okkar stefnu,“ segir Kristinn.
Nóatún í Nóatúni 17 var opnuð árið 1965 og var hún fyrsta Nóatúnsverslunin. Kristinn segir það vissulega vera mikið stökk að loka versluninni en bætir við að allt sé breytingum háð og það sé til góðs.
Áfram verður Nóatúnsverslun í Austurveri á Háaleitisbraut og segir Kristinn að meiri áhersla verði lögð á hana. Hann segir einhverra breytinga að vænta í versluninni en telur þó ótímabært að greina frá þeim.
Með þessum breytingum verða verslanir Krónunnar sextán talsins og segir Kristinn að stefnt sé á að opna fleiri. „Við erum alls ekki hættir en erum að fylgjast með þróun markaðarins og stillum okkur af. Markmið okkar er að sækja fram,“ segir hann. Þá segir hann það einnig vera markmiðið að fjölga verslunum á landsbyggðinni.
Frétt mbl.is: Krónan í stað þriggja Nóatúnsbúða