Hann er með um níu þúsund manns á sínum snærum sem fylgjast grannt með helstu tískustraumum í sínu nánasta umhverfi víða um heim. Markmiðið er að greina það er sem fær fólk til þess að kaupa eina vöru fram yfir aðra og miðla þeim upplýsingum til fyrirtækja.
Daniel Levine, forstjóri Avant-Guide Institute í New York, er aðalfyrirlesari á fyrirlestri Ímark um helstu trend ársins 2015, sem fer fram í Arion banka í fyrramálið. Levine telst einn helsti sérfræðingur heims í að greina stefnu markaðarins og leita stórfyrirtæki á borð við Carlsberg, Mastercard, American Express og New York Times, til hans til þess að átta sig á því hvaða straumar gætu beðið handan við hornið.
Hann bendir á að fyrirtækið leggi áherslu á langvarandi „trend“ eða stefnur fram yfir tískustrauma hvers tíma. Levine tekur dæmi og bendir á að eitt helsta trend okkar samtíma sé tækni sem hægt er að klæðast. Tískustraumurinn hins vegar, sé til dæmis Apple úrið, sem bráðum kemur á markað. „Við höfum áhuga á að skilja hvað það er sem hvetur neytendur til þess að kaupa eitthvað þannig að hægt sé að búa til viðskiptaáætlun í kringum það og byggja upp fyrirtæki,“ segir Levine. „Þú getur verið heppinn og hoppað á einhvern tískustraum en það er ekki það sem við horfum á,“ segir hann. „Við horfum á heildarmyndina,“ segir Levine.
Til þess að greina hvað það er sem fær hjarta neytenda til þess að taka kipp á hverjum tíma nýtur Levine aðstoðar níu þúsund svokallaðra „trendspottera“ sem eiga að fylgjast með andrúmsloftinu á hverjum stað. „Þetta snýst um að skynja tilfinningar og hugsanir fólks,“ segir hann. Levine segir að helst sé leitað til þeirra sem teljast á einhvern hátt áberandi í sínu samfélagi eða einhvers konar leiðtogar. Þá fá þessir einstaklingar sendar til sín vörur frá viðskiptavinum Avant-Guide til þess að sýna og prófa. Levine segir að nú sé verið að leita eftir fólki til þess að gegna þessu hlutverki á Íslandi og hvetur áhugasama til að senda sér línu.
Þegar búið er að safna nauðsynlegum upplýsingum leggur Levine mat á þær og mótar stefnu fyrir fyrirtæki og kemur með hugmyndir að vörum eða tækifærum sem falla þar undir. Hann tekur dæmi og segir eitt helsta trend ársins 2014 hafa verið umhverfisvitund. „Það er gott að byggja umhverfisvænt hótel. En viðskiptavinir munu ekki keppast um að gista þar af þeirri ástæðu einni. Við reynum að taka þetta trend, móta það og búa til eitthvað sniðugt,“ segir hann.
„Við unnum með Royal York hótelinu í Toronto og í stað þess að byggja bara þakgarð komum við fyrir ávaxtarækt og settum býflugur í garðinn. Býflugurnar frjóvga plönturnar, sem eru reiddar fram á veitingastað hótelsins, auk þess sem hunangið sem þær framleiða er einnig notað og selt í verslunum,“ segir hann. „Þarna erum við ekki lengur bara að selja hótel - heldur ákveðinn lífstíl,“ segir Levine.
Í fyrirlestrinum á morgun mun Levine fara yfir trendin sem verða ráðandi á markaðnum á þessu ári og hvernig fyrirtæki á Íslandi geta nýtt þau til að ná athygli, auka sölu og styrkja vörumerki sitt.