Olíuhrunið geri vinnsluna óarðbæra

Talið frá vinstri: Nina Jensen, Line Miriam Sandberg, Jens Ulltveit-Moe, …
Talið frá vinstri: Nina Jensen, Line Miriam Sandberg, Jens Ulltveit-Moe, Albert II fursti, Fran Ulmer og Kjell Giæver. Ljósmynd/Baldur Arnarson

Tekist var á um framtíð olíuvinnslu á norðurskautssvæðinu og hvort nýta eigi ónýttar auðlindir í jörðu, á opnunarfundi ráðstefnunnar Arctic Frontiers í Tromsö í gær. Hríðlækkandi olíuverð setti svip sinn á umræðurnar. Var því haldið fram að olían sé nú of ódýr til að vinnsla á þessu svæði borgi sig.

Það ásamt lækkandi verði raforku sem er framleidd á endurnýjanlegan hátt, einkum sólarorku, hefur nú mikil áhrif á umræður á þessari árlegu ráðstefnu um norðurskautið í Tromsö. Þegar Morgunblaðið fylgdist með ráðstefnunni árið 2009 var áherslan á að auka vægi loftslagsmálanna í stjórnmálum, með vísan til áhrifa loftslagsbreytinga á lífríki jarðar. Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, var þá aðalgestur ráðstefnunnar.

Albert II fursti af Mónakó er nú aðalgesturinn.

Fundargestir risu úr sætum í gærkvöldi þegar furstinn gekk í salinn og þurftu raunar að gera það tvisvar, því að í fyrra skiptið voru ráðstefnuhaldarar of fljótir á sér. Tók Albert II þátt í umræðunum á hófstilltan máta. Auk hans tóku fjórir Norðmenn og einn Bandaríkjamaður til máls og rökræddu svo sjónarmið hvers annars að því loknu.

Olíuvinnslan mun halda áfram

Bandaríski demókratinn Fran Ulmer, formaður rannsóknarnefndar um norðurslóðir (USARC) og fyrrverandi rektor Háskólans í Alaska í Anchorage, sagði orkuþörf mannkyns fara vaxandi.

„Mun þróun nýrra olíu- og gassvæða á norðurskautinu hætta vegna mikillar lækkunar olíuverðs? Ég held ekki. Þar sem er olía eru tækifæri. Hversu hröð sú þróun verður ræðst af þremur þáttum; lýðfræðilegri þróun, efnahagsþróun og stjórnmálaþróun,“ sagði Ulmer.

Varðandi fyrstnefnda þáttinn setti Ulmer áhuga á olíu á norðurslóðum í samhengi við þá áætlun að fólki í millistétt í heiminum muni fjölga úr um 2 milljörðum nú í 5 milljarða árið 2030. Orkuþörfin ætti því eftir að aukast mikið.

Varðandi stjórnmálin bendi hún á að því væru takmörk sett hversu langt ríkisstjórnir geta gengið til að takmarka framboð af orku.

Nefnd hennar er bandaríkjaforseta og bandaríska þinginu til ráðgjafar um norðurslóðamál.

Lagði Ulmer sérstaka áherslu á mikilvægi þess að skapa hagræna hvata fyrir endurnýjanlega orkuvinnslu. Hún vék einnig að vægi loftslagsmála í samtímanum, sagði umræðu um málaflokkinn í Bandaríkjunum „vera að drukkna“ í umræðum um önnur mál.

Umræða um framtíð olíuvinnslu er tilfinningamál í Noregi og hefur mikil lækkun olíuverðs á fáeinum mánuðum lagt vopn í hendur þeirra sem telja að flóknasta og dýrasta olíuvinnslan á erfiðustu svæðunum muni ekki bera sig.

Tunnan af olíu þurfi að kosta 120-130 dali

Nina Jensen, stjórnandi World Wildlife Fund (WWF) í Ósló, sagði norðurskautið tiltölulega ósnertan heimshluta. „Norðurskautið er bókstaflega að bráðna undan fótum okkar vegna loftslagsbreytinga,“ sagði Jensen um áhrif hlýnunar og nefndi hvernig hennar kynslóð gæti orðið sú fyrsta til að upplifa íslaust norðurskaut.

Sagði hún að láta þyrfti tvo þriðju hluta ónýtts jarðefnaeldsneytis kyrrt liggja í jörðu til að hindra frekari loftslagsbretingar af mannavöldum. Það væru hvorki til innviðir né tækni til að takast á við stórt olíuslys á norðurskautinu. Þá benti hún á að tunnan af olíu þurfi að kosta 120-130 bandaríkjadali til að olíuvinnsla í flestum ónýttum olíulindum á þessum slóðum sé hagkvæm. Olíurisinn Shell hafi lagt mikið fé í olíuleit á þessum slóðum en ekki haft erindi sem erfiði.

Þá benti hún á að niðurgreiðslur til vinnslu á olíu og gasi séu sexfalt hærri en til þróunar endurnýjanlegrar orku, nú þegar 3,1 milljarður manna hafi ekki aðgang að raforku. Kallaði hún eftir umskiptum í stefnu Norðmanna í orkumálum vegna loftslagsvandans og vitnaði til nýlegra ummæla norska forsætisráðherrans og Noregskonungs þar um. Hægt sé að anna orkuþörf mannkyns að fullu með endurnýjanlegri orku fyrir árið 2050.

Tvö hundruð þúsund Norðmenn starfa í olíuiðnaðinum

Kjell Giæver, stjórnandi hagsmunasamtakanna Petroarctic, tók næstur til máls. Hann var á öndverðum meiði við Jensen og talaði máli norska olíuiðnaðarins. Um 200.000 manns starfi nú í greininni sem hafi lagt grunninn að „Noregi nútímans“. Sagði Giæver mannkynið mundu þurfa olíu um ókomna tíð og að ekki væri hægt að líta fram hjá því að norðurskautið væri eini staðurinn í Evrópu þar sem ónýttar olíulindir væri að finna.

Taldi hann Barentshafið henta vel til olíu- og gasnýtingar, m.a. vegna lítils hafdýpis. En hann bar brigður á þá fullyrðingu Jensens að olían þurfi að kosta 120-130 dali á tunnuna svo það borgi sig að fara af stað. Áhugi margra olíurisa á vinnslu á norðurskautssvæðinu bendi til hagkvæmni vinnslunnar. Þá sagði hann Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hafa lagt til notkun jarðgass til að ná fram markmiðum um samdrátt í losun koldíoxíðs. En gasið mengar minna en nýting kola.

Giæver nefndi líka förgun koldíoxíðs sem leið sem IPCC hefði mælt með. Sú aðferð væri fær í Noregi. Noregur sé sjötta mesta olíu- og gasvinnsluríki heims. Varðandi ólguna í Rússlandi gat Giæver þess að landamæri Noregs og Rússlands væru þau „friðsömustu“ í Evrópu síðustu þúsund árin.

Umskipti í orkumálum

Jens Ulltveit-Moe, forstjóri fjárfestingasjóðsins Umoe, starfaði lengi við fjárfestingar í olíuiðnaðinum en hefur nú skipt um vettvang og fjárfestir nú í endurnýjanlegri orku. Umoe var stofnað árið 1984 sem olíu- og gasfyrirtæki og tók það þátt í uppbyggingu skipaflotans í norska olíuiðnaðinum, í gegnum eignarhlut í félaginu Knutsen OAS Shipping.

Hann sagði þau tíðindi hafa orðið í orkumálum heimsins í fyrra að þá hafi fjárfesting í endurnýjanlegri orku í fyrsta sinn verið meiri en í olíu- og gasiðnaðinum. Sólarorka væri í sumum heimshlutum jafnvel orðin ódýrari en kolaorka.

Kínverjar breyta sólarorkumarkaðnum

Með því að Kínverjar hafi tekið við keflinu af Þjóðverjum fyrir nokkrum árum og orðið umsvifamestir í smíði sólarsella hafi framleiðslukostnaður á sólarsellum helmingast. Sólarorkuiðnaðurinn þurfi ekki lengur á niðurgreiðslum að halda. Í fyrra hafi verið sett upp sólarorka í heiminum sem jafngildi um 40 meðalstórum kjarnorkuverum.

Ulltveit-Moe telur efnahagsleg rök hníga gegn olíuvinnslu á norðurskautssvæðinu. Olíuhrunið að undanförnu muni seinka olíuleit á þessum svæðum. Hann vék að leyfum til olíuleitar í Barentshafi með þeim orðum að þau væru „leyfi til að tapa fjármunum“. Vinnslan í olíu- og gaslindum þar beri sig ekki við það olíuverð sem nú er á mörkuðum.

„Fyrir Noreg sem þjóð yrði þetta líklega fjárhagslegt stórslys,“ sagði Ulltveit-Moe um olíu- og gasvinnslu á norðurskautssvæðinu. Varaði hann við því að Tromsö og Finnmörk gæti árið 2050 setið uppi með mikla en ónýtta fjárfestingu í olíuinnviðum vegna þessa. Rifjaði hann svo upp að norska ríkið niðurgreiði olíuleit með því að borga 85% kostnaðar við olíuleit, jafnvel þótt engin olía finnist.

Strangar kröfur komi í veg fyrir frekari vinnslu

Hann sagði öryggi norska olíuiðnaðarins framúrskarandi. Með því hins vegar að gera svo strangar kröfur til öryggis að nær útilokað sé að uppfylla þær verði hægt að koma í veg fyrir olíuvinnslu á norðurskautssvæðinu. Öryggismálin séu olíufyrirtækjum dýr.

Taldi hann að tunnan þyrfti að kosta minnst 120 dali til að vinnslan borgi sig.

Þau ummæli fundarstjórans, Olav Orheim, stjórnanda GRID Arendal, ráðgjafaseturs sem starfar í samstarfi við Umhverfisstofnun SÞ (UNEP), að íbúar Tromsö vilji frekari uppbyggingu í olíuiðnaðinum en íbúar Óslóar hins vegar láta olíusvæðin nyrst í Noregi voru athyglisverð.

En Line Miriam Sandberg, sem starfar í þágu viðskiptalífsins í Tromsfylki, þar sem Tromsö er fjölmennasti bærinn, sagði heimamenn ekki mundu taka í mál að láta staðar numið við vinnslu olíu og gass í jörðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK