Óvissan gæti aukið verðbólgu

Óvissa á vinnumarkaði gæti leitt til aukinnar verðbólgu.
Óvissa á vinnumarkaði gæti leitt til aukinnar verðbólgu. Eggert Jóhannesson

Mjög litlar líkur eru á langvarandi verðhjöðnun hér á landi en óróleiki á vinnumarkaði og launahækkanir umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiðum kalla þó á varfærin viðbrögð.

Þetta kemur fram í greinargerð sem Seðlabankinn ritaði fjármála- og efnahagsráðherra sökum þess að verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs fór niður fyrir neðri fráviksmörk verðbólgumarkmiðsins sem eru 1%. Þar er fjallað um ástæður fráviksins og líklegan tíma sem það gæti tekið ná verðbólgu inn fyrir mörkin aftur.

Litlar líkur eru taldar á langvarandi verðhjöðnunarskeiði þar sem nafnvöxtur eftirspurnar er enn töluverður auk þess sem slakinn í þjóðarbúskapnum er við það að hverfa. Aðstæður hér á landi eru því frábrugðnar aðstæðum í flestum viðskiptaríkjum Íslands auk þess sem hagkerfi Íslands er lítið, opið og útflutningsdrifið þar sem ætti að vera hægt að hindra verðhjöðnun með því að knýja fram lækkun á gengi krónunnar með lækkun vaxta eða kaupum á erlendum gjaldeyri.

Laun hækka umfram markmiðið

Er þó talið að þrír þættir kalli á þessu stigi á varfærin viðbrögð. Í fyrsta lagi að verðbólga sé um þessar mundir verulega undir verðbólgumarkmiði en laun hafa hins vegar hækkað töluvert umfram það sem til lengdar samrýmist verðbólgumarkmiði. Viðsnúningur í annað hvort erlendri
verðbólgu eða gengi krónunnar gæti því aukið verðbólguna umtalsvert á stuttum tíma.

Í öðru lagi sé stutt síðan verðbólguvæntingar mældust í samræmi við verðbólgumarkmiðið og því hafi ekki mikið reynt á kjölfestu þeirra við markmið.

Í þriðja lagi þurfi að horfa til þess óróleika sem gætir á vinnumarkaði og getur leitt til þess að verðbólga aukist hratt á ný óháð þróun erlendrar verðbólgu. Óvíst sé því hvort færi gefist á frekari lækkun vaxta bankans fyrr en dregið hefur úr þeirri óvissunni.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK