Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, varaði Grikki í dag við afleiðingum þess ef evrópsk ríki reyndu að endursemja um skuldir sínar samkvæmt frétt AFP. Þingkosningar fara fram í Grikklandi síðar í þessum mánuði en vinstriflokkurinn Syriza fær flest atkvæði í kosningunum ef skoðanakannanir ganga eftir.
Fram kemur í fréttinni að Largarde hafi lagt áherslu á að skuldir væru skuldir og í þeim fælist samningur sem standa yrði við. Ef ríki hætti að greiða af skuldum, færi fram á endurskipulagningu þeirra eða breytingar á skilmálum hefði það afleiðingar í för með sér fyrir skuldarann og traust í hans garð.
Haft er eftir Yannis Dragasakis, þingmanni Syriza, að nauðsynlegt sé að endurskoða skuldir Grikklands enda sé skuldastaða landsins ekki sjálfbær. Málið snerist ekki eingöngu um Grikkland heldur stöðu margra annarra Evrópuríkja.