Um 28,5 milljörðum króna var lýst í eignalaust þrotabú félagagsins SED05 ehf., sem áður hét Geysir Green Energy ehf., en skiptum á því var lokið þann 19. desember sl.
Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag. Félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 28. júní 2013 en það hefur verið í eigu Íslandsbanka frá árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hefur engin starfsemi verið í félaginu og einungis hefur verið unnið að eignasölu. Þá var nafni félagsins breytt á sínum tíma til þess að varðveita þau verðmæti sem gætu mögulega falist í GGE nafninu. Íslandsbanki var stærsti kröfuhafi félagsins.
Geysir Green Energy var stórtækt á árunum fyrir hrun og átti 98% hlut í HS Orku, fyrirtækið Jarðboranir auk annarra jarðhitaverkefna erlendis. Félagið varð hins vegar fyrir miklu tapi í kjölfar hrunsins og tapaði 16,7 milljörðum árið 2008 og 17,8 milljörðum króna á árinu 2009. Geysir Green hafði því ekki styrk til að eiga HS Orku áfram og á árinu 2010 seldi Geysir Green hlutabréf sín í HS Orku til kanadíska félagsins Magma Energy fyrir 32 milljarða króna.
Samkvæmt síðasta ársreikningi SED05 ehf. nam tap félagsins á árinu 2011 um 6,6 milljörðum króna. Tap félagsins á árinu 2010 nam um 7,7 milljörðum.