Hagur heimilanna vænkaðist umtalsvert á síðasta ári og hefur staða heimilanna nú í upphafi árs 2015 ekki verið betri síðan fyrir hrun bankakerfisins 2008. Reiknað er þá með að hagur heimilanna vænkist enn frekar í ár.
Þetta kemur fram hjá Greiningu Íslandsbanka þar sem bent er á hraðan vöxt kaupmáttar launa á árinu, talsverða hækkun verðs íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, aukningu í vinnuaflsnotkun og minnkandi atvinnuleysi.
Laun hækkuðu á síðasta ári um 5,8% frá árinu 2013 samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands sem birt var fyrr í þessari viku. Er þetta viðlíka hækkun launa og var 2012 en öllu minni hækkun en bæði árin 2011 og 2010.
Atvinnutekjur íslenskra heimila voru þá 1.030 milljarðar króna árið 2013, og í því sambandi skilaði ofangreind hækkun launa heimilunum umtalsverðri fjárhæð. Það sem skiptir heimilin hins vegar ekki síður máli er að verðbólgan var lítil á síðasta ári, eða 2,0% að jafnaði, sem gerði það að verkum að hækkun launa í fyrra skilaði meiri kaupmáttarauka en sést hefur hér á landi síðan 2007. Var kaupmáttaraukningin 3,7% en þess má geta að á árinu 2007 jókst kaupmáttur launa um 3,8% og var það þá mesta aukning kaupmáttar launa á milli ára sem mælst hafði frá árinu 1998.
Heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgaði um 1,9% á síðasta ári en aukningin er aðallega vegna fjölgunar starfandi, en þeim fjölgaði um 1,6% á tímabilinu
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,6% á milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt tölum sem bárust frá Þjóðskrá Íslands fyrr í þessari viku og um er að ræða mestu hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu síðan 2007 þegar verð íbúða hækkaði um 10,8% á milli ára. Verðhækkun húsnæðis hefur bætt hag þeirra heimila sem eiga sitt eigið húsnæði, sem eru allflest íslensk heimili eða 73% á árinu 2013.
Greining Íslandsbanka spáir því að hagur heimilanna haldi áfram að batna og er því spáð að laun muni hækka um 6,6% yfir þetta ár og að verðbólgan verði 2,0%.