Tónninn hefur verið sleginn í Grikklandi þar sem vinstri flokkurinn Syriza hefur myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðum Grikkjum, hægri flokki sem deilir skoðunum flokksins um aðhaldsaðgerðir.
Syriza, með Alexis Tsipras í broddi fylkingar, vann í gær stórsigur í grísku þingkosningunum og var einungis tveimur sætum frá hreinum meirihluta á 300 manna þjóðþingi Grikkja. Eru flokkarnir tveir með saman með 162 sæti af 300 í gríska þinginu. Þar af er Syriza með 149 og Sjálfstæðir Grikkir með 13. Tsipras segir Grikki þurfa að endurheimta virðingu sína og að þeir séu nú hættir að lúta alþjóðlegum kröfum um aðhaldsaðgerðir.
Syriza-flokkurinn hefur lýst því yfir að hann vilji endursemja um fyrirkomulag erlendra lána og afskrifa að stórum hluta erlendar skuldir Grikklands. Hefur flokkurinn einnig talað fyrir því að aðhaldsaðgerðum hins opinbera verði hætt hið fyrsta.
Ríkisskuldabréf féllu í verði og gengi evrunnar fór niður í sögulegt lágmark eftir að úrslit kosninganna voru ljós. Evran var þó fljót að ná sér aftur á strik og er það m.a. talið merki um traust markaðarins á nýkynntum aðgerðum seðlabanka Evrópu er fela í sér umfangsmikla magnbundinni íhlutun þar sem seðlabankinn mun kaupa skuldabréf fyrir um 60 milljarða evra á mánuði frá og með mars 2015 til september 2016, eða alls 1.200 milljarða evra.
Benoît Coeuré, stjórnarformaður seðlabanka Evrópu, sagði hins vegar í útvarpsviðtali í morgun að nýja ríkisstjórnin þurfi að endurgreiða skuldir þjóðarinnar - peninga sem fengnir voru úr vösum skattgreiðenda í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Möguleiki geti hins vegar verið á að semja um endurgreiðslufyrirkomulag. Ljóst er að úrslitin valda efnahagslegri óvissu í Evrópu og staðfesti David Cameron, forsætisráðherra Bretlands það meðal annars á Twitter.
The Greek election will increase economic uncertainty across Europe. That's why the UK must stick to our plan, delivering security at home.
Talið er að óvissan verði áfram til staðar svo lengi sem hætta er á því að Grikkir dragi sig úr evrusamstarfinu. Þó er talið líklegt að ófyrirséðar efnahagslegar afleiðingar þess auki líkurnar á því að Grikkir og Evrópa nái samkomulagi. Hafa þó sérfræðingar sagt líklegt að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, myndi frekar vilja sjá Grikki hverfa úr samstarfinu en að láta Tsipras komast upp með að ráðskast með peningamálastefnu evrusvæðisins. Þá hefur einnig verið haft eftir henni að að útganga Grikklands boði ekki endalok myntbandalagsins.
Frá árinu 2010 hafa Grikkir fengið um 240 milljarða evra í að láni frá ESB, Seðlabanka evrunnar (SE) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gegn fyrirheitum um aðhaldsaðgerðir. Tsipras vill hins vegar leggja niðurskurðarhnífinn niður og lítur því spurningin að því hver muni gefa eftir og hvort lánalínum verði haldið áfram opnum eftir 28. febrúar nk., þegar aðstoðaráætlunin líður undir lok.
Í grein Wall Street Journal er farið yfir mögulegar útkomur og er m.a. nefnt að það gæti valdið bankaáhlaupi í Grikklandi og útstreymi fjármagns ef Grikkir komast ekki að samkomulagi við lánadrottnana. Líklega þyrfti að koma á fjármagnshöftum og annað hvort þyrftu Grikkir ríkisaðstoð eða prenta peninga til þess að koma í veg fyrir hrun fjármálakerfisnis.
Lánadrottnar hefur þá sagt að fjármögnun Grikkja í mars velti á samkomulagi nýrrar ríkisstjórnar um áframhaldandi aðhaldsaðgerðir og eins muni seðlabanki Evrópu aðeins hefja að kaupa ríkisskuldabréf Grikkja samkvæmt fyrrnefndum aðgerðum seðlabankans í júní ef komist verður að samkomulagi.
Þá er einnig óttast fordæmið sem það myndi gefa ef Grikkir gætu haldið ESB í eins konar gíslingu með því að hóta að greiða ekki af skuldum sínum þar sem flokkar á borð við Syriza hafa einnig notið vaxandi vinsælda í öðrum aðildarríkjum sem urðu illa úti í fjármálakreppunni, s.s. Podemos-hreyfingin á Spáni, flokkur Beppe Grillo á Ítalíu og Sinn Féin á Írlandi.