Mikil lækkun á olíuverði er ekki farin að skila sér í lægra verði á flugi. Hefur flugverð þvert á móti hækkað um 15 prósent frá síðasta mánuði miðað við verðkönnun Dophop.
Mestar hækkanir eru á flugi til Helsinki, München, Edinborgar og Amsterdam samkvæmt verðkönnuninni en eina lækkunin á milli tímabila er á flugi til Kaupmannahafnar, sem kostar nú um 38.000 kr. að meðaltali báðar leiðir.
Í könnuninni var tekið saman verð á flugi frá Íslandi næstu vikur og borið saman við verð til áfangastaða þar sem samkeppni er á markaðnum. Við gerð verðkönnunarinnar er gert ráð fyrir einum farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er minna en 5 kíló að þyngd.
Mest er samkeppnin á flugi til London, en Dohop bendir á að passa þurfi upp á að taka töskugjöldin með í reikninginn því hlutfallslega getur munað miklu og ekki er því auðséð hvaða flugfélag er ódýrast hverju sinni.
Þrjár dagsetningar voru skoðaðar hverju sinni: sú fyrsta er eftir tvær vikur, önnur eftir fjórar vikur og þriðja eftir átta vikur. Í hverri viku eru allir 7 dagar skoðaðir með vikudvöl í huga og meðaltal hverrar viku er endanlegt verð fyrir það tímabil.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um næstum því 60% frá því í júní.
Í samtali við mbl á dögunum sagði Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að eldsneytisálag Icelandair, sem er hluti af fargjaldi, hafi verið lækkað um 15 prósent í byrjun desember vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu. Hann benti jafnframt á að Icelandair kaupir tryggingar fyrir eldsneytissveiflum sem nýtast vel þegar um verðhækkanir er að ræða. Núna sé flugfélagið hins vegar að greiða meira en sem nemur heimsmarkaðsverði.
Eldsneytisálag Icelandair er hærra en hjá öðrum flugfélögum sem fljúga til landsins en í sundurliðun í flugleitarvél Icelandair má sjá að eldsneytisálag flugfélagsins stendur í 7.900 krónum á flug til Evrópu en 13.900 krónum á flug til Norður-Ameríku. Eldsneytisgjald SAS er 6.600 krónur fyrir Evrópuflug, eldsneytisgjald Norwegian er 1.600 krónur og eldsneytisgjald easyJet er 3.900.
WOW air aðgreinir eldsneytisálag ekki sérstaklega í fargjöldum sínum en Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, sagði í samtali við mbl að lækkandi olíuverð hefði gert flugfélaginu kleift að lækka meðalfargjöldin.
Frétt mbl.is: Lækka gjaldið sem enn telst hátt