Ákvarðanir Seðlabankans eiga að vera gagnsæjar og peningamálastefnan rótgróin, stöðug og fyrirsjáanleg. Stjórnvöld þurfa að halda sig utan mótunar hennar og ein helsta áskorun Íslands liggur í smæð landsins.
Þetta kom fram í máli Lars Christensen, yfirmanns greiningardeildar Danske Bank, á fundi VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka, sem fór fram í Hörpu í morgun undir yfirskriftinni „Ísland án hafta“.
Lars nefndi að efnahagslegur stöðugleiki væri ekki mikill á Íslandi heldur kæmi einungis í um fimm til tíu ára tímabilum. Hann sagði að Seðlabankann hefði unnið gott starf á síðustu fimm árum og lýsti ánægju yfir að skref yrðu stigin til losunar hafta á þessu ári.
Hann sagði það merki um góða peningamálastefnu ef Seðlabankinn virtist ósýnilegur. „Ég held að þorri Dana viti ekki hvað seðlabankastjórinn okkar heitir,“ sagði hann. „Og þeir þurfa ekkert að vita það,“ sagði Lars og spurði salinn hversu margir vissu hver hefði verið seðlabankastjóri á Íslandi á árinu 2008. „Hver skipar eiginlega fyrrverandi forsætisráðherra sem seðlabankastjóra?“ spurði hann þá og sagði að í fullkomnum heimi ætti seðlabankastjórinn einungis að stunda veiðar og tölva gæti allt eins verið við stjórnina þar sem peningamálastefnan væri það rótgróin og stöðug.
Þá benti hann á að ein helsta áskorun Íslands fælist í smæð landsins og að nauðsynlegt væri að aðskilja stjórnmál frá ákvörðunum Seðlabankans þar sem bankinn ætti aldrei að virka sem hjálparhönd stjórnmálamanna.
Þá benti hann á að Íslendingar gætu einfaldlega losað sig við Seðlabankann með því að úthýsa verkefnum hans til annarra. Einn kostur væri að festa gengi krónunnar við annan gjaldmiðil. Mælti hann þó ekki með því, m.a. vegna ósamhverfra hagsveiflna, en sagði kanadískan dollar eða norska krónu þó vera betri kosti en evruna, þar sem líkindi væru með hagkerfunum. Þá væri einnig væri hægt að stefna að því að halda gengi krónunnar innan marka annarra gjaldmiðla eða taka einhliða upp annan gjaldmiðil.
Helsti ókosturinn við að úthýsa verkefnum Seðlabankans nefndi Lars að enginn þrautavara lánveitandi yrði lengur til staðar, þó sumir gætu fremur litið á það sem kost. Þá gæti einnig verið að peningamálastefna annars seðlabanka væri engu betri.
Á fundinum sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra að skref yrðu stigin að losun hafta á fyrri hluta þessa árs. Sagði hann þá einnig að höftin yrðu aldrei afnumin ef markmiðið væri að vita nákvæmlega hvað gerist í kjölfarið. Á endanum snúist málið um að taka stökkið í góðri trú. Þegar talið barst að því að fela öðrum stjórn á peningamálastefnu landsins benti hann á að hægt væri að lítast um í Evrópu og skoða vandamálin sem eru þar eru til staðar og hvað það feli í sér að vera hluti af sameiginlegri stefnu þegar hlutirnir fara á verri veg.