Engin stefna án samfélagsábyrgðar

Birna Einarsdóttir
Birna Einarsdóttir Ómar Óskarsson

„Fyrirtæki geta ekki lengur kynnt stefnu án þess að þar sé fjallað um samfélagslega ábyrgð,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, á ráðstefnu Samtaka atvinnulífsins og Festu miðstöðvar um samfélagsábyrgð sem fór fram í Hörpu í dag undir yfirskriftinni „Árangur og ábyrg fyrirtæki“. Í tilkynningu kemur fram að fjölmennt hafi verið á fundinum þar sem forstjórar og sérfræðingar ræddu hvernig fyrirtæki geta náð viðskiptalegum árangri og verið jafnframt ábyrg gagnvart samfélaginu og umhverfi sínu.

Birna kynnti viðamikla endurskoðun á stefnu Íslandsbanka þar sem „ábyrg bankastarfsemi“ (e.responsible banking) verður höfð að leiðarljós. Áhersluþættirnir eru góðir stjórnarhættir, ábyrg fræðsla til viðskiptavina, umhverfisvernd og fleira. 

Sporna gegn útblæstri gróðurhúsaloftegunda

Þá sagði Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, að áhersla hefði verið lögð á verkefni sem sporna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda og nefndi Eggert að N1 hefði að ýmsu leyti verið brautryðjandi í þeim efnum.

Bragi Smith, framkvæmdastjóri Lín Design, sagði að fyrirtækið hefði dregið úr notkun á plasti um 90% með því að skipta umbúðum úr plasti út fyrir bómullarumbúðir sem eru endurnýtanlegar. Þá sagði hann að Lín legði áherslu á að kynna sér vel aðbúnað og starfshætti hjá birgjum sínum í Kína til að ganga úr skugga um að þar sé vel staðið að málum.

Skipin menga minna

Umhverfiskröfur sem HB Grandi hefur gert varðandi smíði á fimm nýjum skipum frá Tyrklandi eru þá talsvert umfram það sem krafist er í lögum og reglum, að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra fyrirtækisins. 

Nefndi hann að skipin munu brenna svonefndri MD olíu, sem mengar minna en hefðbundin olía, og þau verða auk þess búin fullkomnum mengunarvarnarbúnaði þótt þess sé ekki krafist í lögum og reglum.

Í dag eru 49 fyrirtæki orðin félagar í Festu og eru fjölmörg fyrirtæki á Íslandi farin að bjóða ráðgjöf á þessu sviði. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri ávarpaði ráðstefnuna í dag og tilkynnti að Borgarráð hafi samþykkt einróma í liðinni viku að Reykjavíkurborg yrði aðili að Festu en það er fyrsta sveitarfélagið til þess.

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK