Síðasta rekstrarár var eitt það besta í sögu Nýherja og nam hagnaður fyrirtækisins um 259 milljónum króna samanborið við 1,6 milljarða tap árið áður. Hagnaður Nýherja á fjórða ársfjórðungi nam 110 milljónum króna samanborið við 496 milljón króna tap á árinu 2013.
Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 827 milljónum, eða um 7,2% af veltu fyrirtækisins. EBITDA á fjórða ársfjórðungi nam 241 milljón króna. Rekstrarhagnaður nam 528 milljónum fyrir árið í heild og 167 milljónum króna á fjórða ársfjórðung
Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, bendir á að sveiflur í rekstri á undanförnum árum torveldi samanburð milli ára en engu að síður sé ljóst að síðasta rekstrarár sé eitt það besta í ríflega 20 ára sögu félagsins og mjög jákvæður viðsnúningur frá árinu 2013.
„Góð niðurstaða ársins 2014 er ánægjuleg staðfesting þess að nýjar áherslur í rekstri Nýherja eru til þess fallnar að skapa verðmæti fyrir eigendur, viðskiptavini og samfélagið allt. Þótt stór skref hafi verið stigin á síðasta ári, er umtalsverð vinna eftir, til að treysta afkomu og bæta eiginfjárstöðu félagsins, sem er of lág,“ er haft eftir Finni í tilkynningu.
„Þar horfum við til áframhaldandi hagræðingar í rekstri og breytinga á félagaskipan Nýherja. Aðskilnaður rekstrar TEMPO frá TM Software ehf. er mikilvægt skref í þessari vegferð. Við náum að skerpa áherslur í sérhæfðri hugbúnaðarþróun á vegum TM Software. Um leið verður TEMPO vörumerkið sýnilegra og fleiri tækifæri verða til samstarfs við utanaðkomandi aðila um að styðja við hraðan vöxt, m.a. með tengslamyndun og fjármögnun á vöruþróun og markaðsstarfi,“ er haft eftir Finni.