Samruni Play og Netia í vændum?

Björgólfur Thor Björgólfsson hefur látið að sér kveða á fjarskiptamörkuðum.
Björgólfur Thor Björgólfsson hefur látið að sér kveða á fjarskiptamörkuðum. mbl.is/Kristinn

Pólsku fjarskiptafélögin Play, sem Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á um helmingshlut í, og Netia hyggjast hefja samstarf sín á milli sem gæti mögulega leitt til samruna félaganna, samkvæmt heimildum mbl.is.

Netia, sem er metið á 556 milljónir Bandaríkjadala, sem jafngildir um 74 milljörðum króna, tilkynnti í fyrra að félagið hygðist velja á milli Play og símafélagsins Polkometel sem samstarfsaðila á sviði farsímaþjónustu.

Talið er að Play hafi nú orðið fyrir valinu. Er ekki aðeins horft til mögulegs samstarfs félaganna, heldur einnig til þess að þau renni að lokum saman.

Netia sérhæfir sig í fastlínu- og breiðbandsþjónustu, en rekur hins vegar ekki farsímaþjónustu, þar sem möguleikarnir til vaxtar eru taldir hvað mestir.

Netia hefur byggt upp sterka stöðu á pólska fjarskiptamarkaðinum, aðallega með yfirtökum á minni félögum. Hins vegar hafa tekjur félagsins af fastlínuþjónustunni dregist saman undanfarið og hafa stjórnendurnir því leitað leiða til að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn.

Markmiðið að auka tekjur

Seinasta haust sagðist pólski milljarðarmæringurinn Zbigniew Jakubas, sem er stærsti hluthafi Netia, vilja skoða möguleikann á að Netia og Play hæfu náið samstarf sín á milli. Markmiðið væri að stórauka tekjur Netia. Félagið er í dag næststærsta fjarskiptafélag Póllands. Play er hins vegar það fjórða stærsta.

Adam Sawicki, forstjóri Netia, hefur látið hafa eftir sér að fyrst og fremst vilji félagið efla samband sitt, viðskiptalegs eðlis, við Play. Í samtali við fréttavef Reuters á seinasta ári þvertók hann fyrir það að um einhverja óvinveitta yfirtöku væri að ræða. „Við erum að tala um að byggja viðskiptamódel sem gefur okkur tækifæri til vaxtar,“ sagði hann.

Næststærsta eign Novators

Novator varð stærsti ein­staki hlut­hafi Play, með um helm­ings­hlut, seinasta sumar. Eig­end­ur fé­lags­ins gáfu þá út skulda­bréf, svo­kallaða PIK-nótu, að and­virði 415 millj­ón­ir evra, sem jafn­gilti 64 millj­örðum króna á gengi þess tíma, sem nýtt var til þess að leysa til Novator hlut Straums fjár­fest­ing­ar­banka í Play. Það var jafnframt loka­hnykk­ur í skulda­upp­gjöri Björgólfs Thors.  

Bankinn hafði átt eignarhlut í Play frá stofnun þess, árið 2007.

Vöxt­ur Play hef­ur verið ör á und­an­förn­um árum og sagði í frétta­til­kynn­ingu sem Björgólfur Thor sendi frá sér í tilefni af skuldauppgjörinu að sá vöxt­ur hefði átt sinn þátt í að upp­gjör­inu lauk á aðeins fjór­um árum, en ekki fimm til sex árum eins og til stóð. 

Hlut­ur Novators í Play er stærsta eign fjár­fest­inga­fé­lags­ins, að frá­töld­um hlut fé­lags­ins í Actavis.

Mikilvægt að þekkja sinn vitjunartíma

Björgólfur Thor sagði í samtali við Viðskiptablaðið í lok nóvembermánaðar í fyrra að mikilvægt væri í hverri fjárfestingu að þekkja sinn vitjunartíma. Brátt kæmi að þeim tímapunkti að hann seldi hlut sinn í Play og íslenska símafélaginu Nova, enda væru fyrirtækin að verða stöndug. „Ég ætla ekki að eiga þessi fyrirtæki að eilífu, því þá er maður að setja upp fjölskyldufyrirtæki. Það er ekki það sem ég geri.“

Eins og kunnugt er hefur Björgólfur Thor látið mikið til sín taka á fjarskiptamörkuðum, þá sér í lagi í austurhluta Evrópu, stærsta hluta síns viðskiptaferils. Novator, fjárfestingafélag hans, átti til dæmis allt að þriðjungshlut í Netia fyrir hrun en hluturinn var seldur í byrjun árs 2009 fyrir um átján milljarða króna, að því er fram kom í fjölmiðlum á þeim tíma. Þá áttu félögin tvö, þ.e. Novator og Netia, Play saman, en gríski kaupsýslumaðurinn Panos Germanos keypti hlut Netia í Play undir lok árs 2008. Hann er enn þann dag í dag hluthafi í Play, í gegnum fjárfestingafélagið Tollerton.

Þá greindi mbl.is frá því á föstudag að Novator hefði fest kaup á fjarskiptafélaginu Nextel í Síle.

Uppfært kl. 10:25:

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar sagði að samkvæmt heimildum mbl.is hefði Novator í hyggju að nýta tækifærið, vegna mögulegs samstarfs Play og Netia, og losa hlut sinn í Play. Það er ekki rétt, samkvæmt upplýsingum frá Novator.

Hræringar eru í vændum á pólska fjarskiptamarkaðinum.
Hræringar eru í vændum á pólska fjarskiptamarkaðinum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK