Viðskiptavinum 365 var gert að greiða 11% virðisaukaskatt (vsk) vegna reikninga sem gefnir voru út í desember á síðasta ári en ekki 7% líkt og virðisaukaskattslögin kváðu á um á þeim tíma.
Reikningarnir voru gefnir út vegna þjónustu sem veita átti í janúar á þessu ári eða eftir að breytingar á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, m.a. á skatthlutföllum virðisaukaskatts, hefðu tekið gildi.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigrún L. Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs 365, að tekjufærslan eigi sér stað miðað við hvenær þjónustan er veitt. Óskar H. Albertsson, skrifstofustjóri hjá ríkisskattstjóra segir hins vegar, að miða skuli skattinn við útgáfudag reiknings.