Bjarni: Ekkert skattaskjól hjá mér

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra,
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að ráðuneytið hafi ekki lagt mat heildarfjárhæð undanskotinna eigna í þeim 416 málum, sem skattrannsóknarstjóra stendur til boða að kaupa. Hann segir að ekki sé um að ræða hefðbundnar upplýsingar um bankareikninga í fjármálastofnunum.

Í tilkynningu sem ráðuneytið sendi fjölmiðlum fyrr í dag sagði að gögnin myndu kosta 150 milljónir króna og að ráðuneytið væri til­búið að greiða fyr­ir kaup­un­um ef skatt­rann­sókn­ar­stjóri tel­ur upp­lýs­ing­arn­ar koma að gagni. Í samtali við mbl.is segir Bjarni að ráðuneytið muni beita sér fyrir því að embættið fái fjárheimildir til kaupanna ef sú verður niðurstaða skattrannsóknarstjóra.

Árangurstenging aldrei skilyrði

Ljóst er að ekki verður mögu­legt að hafa greiðslurn­ar háðar ár­angri af nýt­ingu gagnanna en Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri ríkisins, sagði í morgun að ráðuneytið hefði sett árangurstenginguna sem skilyrði fyrir kaupunum og því væri nauðsynlegt að fá afstöðu ráðuneytisins við breyttri stöðu.

Bjarni segir þetta aldrei hafa verið ófrávíkjanlegt skilyrði, heldur einfaldlega árétting um að ráðuneytið styddi embættið í því að sækja gögnin með þessum hætti. Lausn sem skattrannsóknarstjóri hefði lagt til í bréfi til ráðuneytisins í september. Bjarni segist þó ekki vita hvers vegna sú lausn hafi verið slegin út af borðinu.

Ekki hefðbundnar bankaupplýsingar

Þá segist hann ekki hafa upplýsingar um hver seljandi gagnanna sé, en tekur fram að ekki sé um hefðbundnar bankaupplýsingar að ræða. Aðspurður hvort þeirra hafi mögulega verið aflað með ólögmætum hætti eða hvort fullvíst sé að þau séu ósvikin, segir hann ráðuneytið ekki hafa tekið það til skoðunar. Skattrannsóknarstjóri hafi hins vegar reynt að glöggva sig á því.

Engir staflar af 10.000 krónum

Aðspurður hvað hann hafi átt við með ummælum sínum um að ríkið myndi ekki afhenda huldumönnum ferðatöskur af peningum segist hann hafa verið að vísa til þess að í sumum tilvikum séu gögn boðin fram af einstaklingum sem hvorki vilja koma fram undir nafni né gefa út reikninga. Bendir hann á að íslenska ríkinu séu skorður reist­ar á grund­velli fjár­reiðulaga og laga um bók­hald hvernig viðskipt­um rík­is­ins við einkaaðila er háttað.

Þá segist hann ekki vita til þess að farið hafi verið fram á greiðslu í reiðufé. „En það er rétt að menn hafi það í huga að ríkið getur ekki afhent nafnlausum einstaklingum sem ekki geta gefið út reikninga stafla af tíu þúsund króna seðlum. Það stangast á við lög og við því verður að bregðast ef eitthvað slíkt er uppi á borðum,“ segir Bjarni. „En það hefur ekki komið fram í samskiptum við skattrannsóknarstjóra að krafa sé um slíkt.“

Ummæli Birgittu ómerkileg

Í Fréttablaðinu í dag var rætt við forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna um málið og sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, m.a. að svo virtist sem íslenska frændhyglin væri að þvælast fyrir fjármálaráðherra. „Hann dregur þjóð sína á asnaeyrunum,“ var haft eftir henni.

Bjarni segir ummæli Birgittu vera ómerkileg og þvætting þar sem hann hafi þvert á móti beðið óþolinmóður eftir því að fá framkvæmd í málið. „Mér hefur fundist þetta mál taka of langan tíma þar sem það á rætur að rekja til aprílmánaðar á síðasta ári,“ segir Bjarni. „En það er aðalatriðið að fá í það niðurstöðu og vonandi getur þetta orðið að gagni við að uppræta skattsvik vegna þess að í mínu ráðuneyti, á meðan ég sit þar, verður ekkert skjól að finna fyrir þá sem ekki hyggjast standa undir sínum samfélagslegu skuldbindingum og greiða skatta,“ segir Bjarni.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri mbl.is/Árni Sæberg
Ekki kemur til greina að greiða fyrir upplýsingar með stafla …
Ekki kemur til greina að greiða fyrir upplýsingar með stafla af tíu þúsund krónu seðlum að sögn Bjarna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK