Skilyrði fyrir kaupum ekki uppfyllt

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri Árni Sæberg

Að minnsta kosti annað þeirra tveggja skilyrða sem fjármála- og efnahagsráðherra setti fyrir kaupum á gögnum um meint skattaundanskot íslenskra félaga telst ekki uppfyllt og endurskoða þarf hitt. Ráðuneytið hefur ekki svarað bréfi skattrannsóknarstjóra frá 27. janúar um hvort halda eigi áfram með málið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri ríkisins, sendi fjölmiðlum í morgun. Skilyrðin tvö voru annars vegar að ekki yrðu gerðir samningar við aðra en þá sem „til þess eru bærir“ og hins vegar að mögulegt væri að skilyrða greiðslur til seljenda gagnanna við hlutfall af innheimtu.

Hefur bent á mögulegar leiðir

Í bréfinu sem skattrannsóknarstjóri sendi ráðuneytinu sagði að nauðsynlegt væri að afstaða ráðuneytisins til þessa lægi fyrir. Þá segir jafnframt að skattrannsóknarstjóri telji nauðsynlegt að áður en gengið verði til mögulegra kaupa á nefndum gögnum, liggi fyrir með hvaða hætti skattyfirvöld komi til með að vinna úr þeim, svo farsælt verði. Þá segist Bryndís í samtölum hafa bent starfsmönnum ráðuneytisins á mögulegar leiðir sem þar koma til greina en engin svör hins vegar fengið.

Fyrir liggur að Bryndís fékk gögnin í hendur í apríl í fyrra en skattrannsóknarstjóri heyrir undir fjármálaráðuneytið og þarf ráðuneytið því að tryggja þær fjárheimildir sem þarf til þess að kaupa gögnin.

Engar ferðatöskur með peningum

Formlegt erindi um málið var lagt inn hjá ráðuneytinu í haust þar sem Bryndís sagðist hafa fengið sýnishorn úr gagnasafni sem embættið væri með til athugunar hvort ætti að kaupa. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti skattrannsóknarstjóra þann 3. desember að ráðuneytið væri tilbúið að tryggja nauðsynlegar fjárheimildir, með fyrrnefndum skilyrðum. Hefur hann þó síðar bætt því við að það komi ekki til greina að „greiða fyr­ir gögn af þess­um toga með ferðatösk­um af seðlum til ein­hverra huldu­manna.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka