Hækki almenn laun til jafns við nýsamþykktar launahækkanir lækna myndi meðal vaxtakostnaður 15 milljóna króna óverðtryggðs láns aukast um 30 þúsund krónur á mánuði samkvæmt áætlunum efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Í greiningu efnahagssviðsins er bent á að aukin ásókn heimila í óverðtryggð lán hafi gert þau viðkvæmari fyrir vaxtabreytingum og þannig aukið áhrifamátt peningastefnunnar. Lækkunin á greiðslubyrði sem hlaust af Leiðréttingunni myndi fljótt að ganga til baka við miklar vaxtahækkanir.
Þá segir að sjá megi af síðustu tveimur kjarasamningum að Seðlabankinn bregst hratt við verðbólgu með hækkun stýrivaxta.
Í spá SA er gert ráð fyrir þremur sviðsmyndum. Sú fyrsta gerir ráð fyrir almennum launahækkunum skv. ráðleggingum Seðlabankans, sem nema 3,5% á ári. Er þá talið að verðstöðugleiki yrði tryggður og að ekki væri þörf á gengisaðlögun þar sem stöðugleikinn sem af hlytist skapar skilyrði til framleiðnivaxtar. Verðbólgumarkmið seðlabankans myndi haldast.
Í annarri sviðsmyndinni er gert ráð fyrir hækkunum umfram það, eða svipuðum og í kjarasamningunum árið 2011. Árlegar samningsbundnar launahækkanir yrðu 3,7% en lægstu launin myndu að meðaltali hækka um 6,7%. Þá segir að stöðugleika væri ógnað og framleiðniaukning skili ekki svigrúmi til hækkunar raungengis. Nafngengi krónunnar þyrfti því að veikjast um 20% á næstu þremur árum til að skila raungengi sem samrýmist ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Verðbólgan færi fljótlega yfir verðbólgumarkmið seðlabankans og stýrivextir myndu hækka.
Þriðja og síðasta sviðsmyndin gerir ráð fyrir að laun á almennum vinnumarkaði hækki að sama marki og samið var um við lækna nú fyrir skömmu, þ.e. 30% uppsöfnuðum launahækkunum á næstu þremur árum. Um er ræða 19% hækkun á fyrsta ári samningsins, 7,6% á öðru ári hans og 1,5% á þriðja árinu.
Þar segir að nafngengi krónunnar þyrfti að veikjast um 26% á næstu þremur árum og stýrivextir myndu hækka skarpt samhliða aukinni verðbólgu.