„Ef þessi gögn hafa verið illa fengin í auðgunarskyni er rétt að vekja athygli skattrannsóknarstjóra og fjármálaráðherra á 263. gr. almennra hegningarlaga,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vegna umræðu um kaup á gögnum sem gætu upplýst um ólögmæt undanskot frá skattgreiðslum.
Brynjar segir í nýlegum pistli að ástæða sé til að taka undir með fjármálaráðherra að gera eigi allt sem hægt er til að upplýsa skattsvik enda mikilvægt samfélagslegt hagsmunamál þar á ferð. Hins vegar segi í umræddri lagagrein: „Ef maður kaupir eða tekur við hlutum, sem fengnir hafa verið með auðgunarglæp, og hann hefur við móttökuna eða kaupin sýnt af sér stórfellt gáleysi, þá varðar það sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].”
Hann segir að þótt vera kunni að auðvelt sé að breyta lögum um opinber innkaup svo hægt sé að kaupa gögn af huldumönnum án útgáfu reiknings sé heldur flóknara að taka úr sambandi eða fella niður framangreint hegningarlagaákvæði.