Geirneglir starfsemi Primera

Primera Air
Primera Air

Samkvæmt dómi sem kveðinn var upp hjá Evrópudómstólnum í gær eiga starfsmenn á vegum erlendrar starfsmannaleigu að fá greitt samkvæmt finnskum kjarasamningum séu þeir starfandi þar í landi. Lagaumhverfið er hið sama á Íslandi og geirneglir dómurinn flugfélagið Primera að sögn lögfræðings Alþýðusambands Íslands. 

Mbl hefur greint frá því að íslenskum starfsmönnum flugfélagsins Primera hafi verið sagt upp störfum en grískar flugfreyjur á vegum starfsmannaleigu á Gu­erns­ey ráðnar sem verktakar inn í staðinn. ASÍ hef­ur skorað á ís­lensk stjórn­völd að stöðva starf­semi Primera og hefur undir höndum ráðningarsamninga flugfreyjanna sem sýna að félagið brýtur bæði lög og grundvallarréttindi á starfsfólkinu að sögn Magnúsar M. Norðdahl, lögfræðings ASÍ. Gögnin hafa verið afhent Vinnumálastofnun sem hefur heimildir til þess að krefjast þess að starfsemin verði stöðvuð þar til útbætur verða gerðar.

Kjarasamningar ofar þjónustufrelsi

Í dómnum sem féll í gær var um að ræða pólskt fyrirtæki sem sá um verk er tengdist raflögnum í kjarnorkuveri í Finnlandi. Pólska fyrirtækið réði 180 pólska rafvirkja til verksins og sendi þá til Finnlands. Rafvirkjarnir sneru sér til rafiðnaðarsambandsins í Finnlandi og kröfðust lágmarkslauna samkvæmt finnskum kjarasamningum. Þessu neitaði pólska fyrirtækið og vísaði til þjónustufrelsis og sagði launin eiga að vera samkvæmt samningum pólska fyrirtækisins. 

Þessu hafnaði Evrópudómstóllinn og sagði að í löndum þar sem kjarasamningar eru nógu skýrir og læsilegir og hafa almennt gildi, líkt og raunin er í Finnlandi og á Íslandi, ber fyrirtækjum sem senda starfsfólk tímabundið til landsins að virða þá. 

Eiga að fá jöfn laun og hjá WOW og Icelandair

Magnús segir að Primera þurfi samkvæmt þessu að greiða lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum flugliða á Íslandi og bætir við að þau séu svipuð í kjarasamningum WOW og Icelandair, eða á milli 230 og 250 þúsund krónur á mánuði. Í dómnum segir þá einnig að þegar launaflokkar eru í kjarasamningum, líkt hér er raunin, beri að taka tillit til fyrri reynslu í öðrum löndum. Hafi flugfreyjunnar á vegum áhafnaleigunnar því t.d. fyrri reynslu eigi ekki að setja þær í lægsta launflokkinn.

Samkvæmt ráðningarsamningnum á vegum áhafnaleigunnar á Gu­erns­ey, sem ASÍ hefur undir höndum, fá flugfreyjurnar 400 evrur í grunnlaun, eða 60 þúsund krónur, auk greiðslu fyrir 65 svokallaða „blocked hours“ en það sá tími sem líður áður en vélin er færð á stæði við brottför og þar til hún kemur að því aftur. Samanlagt nemur sú upphæð 1375 evrum, eða 206 þúsund krónum. Magnús segir það einnig liggja fyrir að flugfreyjurnar vinni fleiri klukkustundir en þessar 65, en ekkert segir hins vegar um yfirvinnu í samningnum.

Fá rúmar hundrað þúsund krónur

Flugfreyjurnar starfa sem verktakar hjá Primera, þrátt fyrir að þær ættu í raun að vera launamenn. Sem verktakar þurfa þær sjálfar að standa skil á öllum sköttum og gjöldum. Segir Magnús að flugfreyjurnar þyrftu að minnsta kosti að vera með um 320 þúsund krónur á mánuði til þess að ná grunnlaunum samkvæmt íslenskum kjarasamningum þar sem frádrátturinn nemur um 70 til 90 þúsund krónum. Samkvæmt því fá þær um 116 til 136 þúsund krónur útborgað í dag.

Magnús segir málið ekki einungis snúast um óréttlæti gagnvart erlendum launþegum við störf á Íslandi heldur leiði það einnig til þess að íslenskt launafólk verður ekki samkeppnishæft auk þess sem íslensk flugfélög sem fylgja settum reglum verða ósamkeppnishæf.

Íslenskir kjarasamningar eiga að gilda

Andri Már Ing­ólfs­son, stjórnarformaður Primera, hef­ur sagt það vera eðli­lega ráðstöf­un að nota áhafna­leig­ur fyr­ir hluta af starfseminni til ein­föld­un­ar á starfs­manna­mál­um, enda þurfi sum­ir flugliðar að flytja sig á milli landa eft­ir verk­efn­um. Þá sagði hann að eðli starf­sem­inn­ar væri í grunn­inn gjör­ólík venju­legu áætl­un­ar­flug­fé­lagi sem flýg­ur all­ar sín­ar ferðir frá sama stað.

ASÍ hefur hins vegar bent á að samkvæmt lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja með tímabundna starfsmenn á Íslandi, gildi íslensk lög um réttarstöðu áhafnarinnar. Um lágmarkslaun og lágmarkskjör eigi samkvæmt því að fara eftir íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum.

Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera.
Andri Már Ingólfsson, stjórnarformaður Primera. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK