Maðurinn sem lak gögnunum um skattaundanskot tengd bankanum HSBC er reiðubúinn að afhenda íslenskum stjórnvöldum þau gögn sem lúta að Íslendingum - þeim að kostnaðarlausu. Þetta sagði Eva Joly í samtali við Rúv í kvöld, en hún setti sig í samband við manninn.
Í gögnunum sem lekið var úr útibúi breska bankans HSBC í Sviss kemur fram að sex viðskiptavinir með tengingu við Ísland hafi átt um 9,5 milljónir dollara, eða rúma 1,2 milljarða íslenskra króna, á átján bankareikningunum.
Sautján prósent þessara sex viðskiptavina eru Íslendingar eða með íslenskt vegabréf, sem þýðir að um einn einstakling er að ræða. Hæsta fjárhæðin sem einstakur viðskiptavinur með Íslandstengingu geymdi á reikningunum var átta milljónir dollara, eða um einn milljarður íslenskra króna. Voru því fimm viðskiptavinir með þær rúmlega 200 milljónir sem eftir standa.
Ísland situr í 154. sæti á lista yfir þau lönd sem voru með hæstar fjárhæðir á reikningunum.
Haft var eftir Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra í kvöldfréttum Rúv að hún ætlaði að setja sig í samband við Evu Jolie til að fá gögnin og ganga úr skugga um að um séu að ræða sömu upplýsingar og hún óskaði eftir í vikunni.
Hún sagðist hafa mikinn áhuga á að fá gögnin.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur beint því til skattrannsóknarstjóra að athuga hvort fréttaflutningur af viðskiptaháttum svissneska útibús breska bankans HSBC, og eftir atvikum annarra banka, gefi tilefni til rannsókna af hálfu embættisins.