Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren vill að bandarísk stjórnvöld taki hart á HSBC bankanum og íhugi jafnvel að sækja bankann, sem og stjórnendur hans, til saka fyrir að hafa aðstoðað viðskiptavini sína við að skjóta fé undan skatti.
Hún segir að ríkisvaldið taki hart á þeim sem verða uppvísir að því að brjóta lögin. Hið sama ætti að gilda um voldugar fjármálastofnanir.
Hún hefur gagnrýnt bandarískar fjármálastofnanir harðlega fyrir framgöngu sína og bent á að allir ættu að vera jafnir fyrir lögunum. Almennir borgarar fari í fangelsi fyrir að stela smápeningum og það sama ætti að gilda um þá sem stela milljörðum dollara.
Breski bankinn HSBC birti í dag heilsíðu auglýsingar í nokkrum dagblöðum þar sem bankinn biður afsökunar á því að útibú bankans hafi aðstoðað viðskiptavini sína við skattsvik.
Í auglýsingunni er að finna afsökunarbeiðni sem forstjóri HSBC samstæðunnar, Stuart Gulliver, ritar þar sem hann lýsir nýlegum fregnum af skattsvikum í Sviss sem sársaukafullri reynslu.