Þeir sem vilja fara í Bláa lónið þurfa að vera nokkuð forsjálir og panta sér tíma. Þetta má gera á heimasíðu Bláa lónsins en eins og staðan er í dag er nánast uppbókað þar til á mánudaginn. Þeir hvatvísu sem ætla að skjótast í lónið geta því ekki búist við greiðum aðgangi.
Hægt er að bóka fjóra upplifunarpakka, allt frá hefðbundnum heimsóknum til lúxusdaga, en þeir eru á verðbilinu 5.400 krónum til 25.500 að vetri til, en frá 6.900 krónum til 25.500 á sumartíma.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir að verið sé að leysa velmegunarvandamál. Þetta sé aðgangsstýring sem nauðsynlegt hafi verið að taka upp til þess að varðveita upplifun gestanna.
Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir að pláss fyrir 750 manns í lóninu á hverjum tíma og takmarkast það við fjölda skápaplássa. Hún segir meirihluta gestanna koma á sama tíma, fyrir hádegi, og hægt sé að ná betri afköstum með aðgangsstýringunni.
Grímur segir aðsóknina í lónið hafa verið góða miðað við árstíma auk þess sem gestum hafi fjölgað. „En þetta er eitt af því sem við höfum verið að huga að. Til þess að varðveita upplifunina þarf að skoða hversu margir eru að koma á hverri tímaeiningu,“ segir Grímur.
„Nú er sá tími kominn að menn geti ekki bara mætt hvenær sem er, en þetta er vel þekkt fyrirkomulag á ferðamannastöðum erlendis,“ segir hann.
Grímur segir vinnu að þessu hafa staðið yfir á síðustu misserum og bætir við að breytinguna þurfi að gera í góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila þannig að hún komi ekki á óvart.
Jarðvegsframkvæmdir við Bláa lónið eru hafnar en til stendur að stækka upplifunarsvæðið og lónið sjálft auk þess að byggja fimm stjörnu lúxushótel. Grímur segir að nú sé beðið eftir niðurstöðum úr útboði hvað mannvirkjagerðina varðar og reiknað er með að framkvæmdir hefjist í vor.
Áætluð verklok í lóninu eru fyrir sumarið 2016 en hótelið á að verða tilbúið í lok árs 2016 eða byrjun árs 2017.