Nú þegar tæplega helmingur félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar hefur birt uppgjör sín fyrir 2014 liggja þegar fyrir tillögur um að 8,3 milljarðar króna verði greiddar hluthöfum í arð, samkvæmt tillögum stjórna til samþykktar á aðalfundum félaganna.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að allt bendi til þess að arðgreiðslur á þessu ári verði umtalsvert umfram þá 12 milljarða króna sem skráð félög greiddu út til hluthafa á síðasta ári í formi arðs.
Félögin sem hafa þegar birt uppgjör eru Icelandair, Össur, Marel, Nýherji, TM og Vodafone/Fjarskipti. Öll félögin nema Nýherji eru með áform um arðgreiðslur en stjórn Nýherja gerir það að tillögu sinni að greiða ekki út arð til hluthafa vegna síðasta rekstrarárs.