Segist hafa verið leppur Glitnis

Rúmum 15 milljörðum króna var lýst í þrotabú verktakafyrirtækisins Laugarakurs ehf, sem áður hét Hanza-eignir. Fyrirtækið byggði 335 íbúðir í Akrahverfinu í Garðabæ á árunum fyrir hrun.

Þetta kom fram í Lögbirtingarblaðinu fyrir helgi þar sem jafnframt segir að aðeins 0,3 prósent krafna fengust greiddar, eða um 60 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra búsins var Íslandsbanki stærsti kröfuhafinn, en Glitnir tók félagið yfir á árinu 2009. Þá átti slitabú Glitnis einnig 2,5 milljarða kröfu á hendur búinu. 

Hanza-hópurinn ehf., sem síðar hét Marklendur ehf, var stærsti hluthafi Laugarakurs, áður en Glitnir leysti félagið til sín. Félagið Marklendur ehf., var úr­sk­urðað gjaldþrota í des­em­ber 2011 ár og var skiptunum lokið í nóv­em­ber 2012 þar sem tæp­um 2,5 millj­arði króna var lýst í búið. Ekk­ert fékkst greitt upp í almennar kröf­ur.

Hanza-hópurinn var stórtækur í byggingarframkvæmdum og sá meðal annars um end­ur­bygg­ingu gamla DV-húss­ins að Þver­holti 11, fram­kvæmd­ir sem fé­lagið Þver­holt 11 ehf. hélt utan um. Skiptum á því félagi var lokið í október sl. þar sem rúmum 1,8 milljarði króna var lýst í eignalaust þrotabúið.

Eftir að Glitnir fór í þrot tók Íslandsbanki við Laugarakri og var félaginu komið fyrir í Miðengi, dótturfélagi Íslandsbanka sem sér m.a. sér um eignasölu. Laugarakur hélt þá utan um fyrrnefndar íbúðir á Arnarneshæð, en óskað var eftir gjaldþrotaskiptum þegar eignirnar höfðu verið seldar. Var félagið úrskurðað gjaldþrota hinn 24. október 2012 og skiptum lokið 29. desember sl.

Landið farið um margar hendur 

Saga Arnarneshæðar er nokkuð löng og skrautleg en athafnamaðurinn Jón Ólafsson keypti landið árið 1999 fyrir 700 milljónir króna af upprunalegum landeigendum. Fljótlega seldi hann hluta landsins fyrir 200 milljónir en stærstan hluta þess seldi hann á árinu 2002 fyrir 455 milljónir króna. Kaupandinn var félagið Árakrar ehf., sem var fé­lag sex bygg­ing­ar­fyr­ir­tækja og Bygg­ing­ar­fé­lagsins Arn­ar­ness, sem var í eigu Jóns Ólafs­son­ar.

Byggingarfélagið Kambur tók þá að sér framkvæmdirnar fyrir Árakur en landið var síðar flutt yfir í Laugarakur og selt til Phoen­ix fjár­fest­ing­a ehf., sem í dag er í eigu Pálma Sveins Pálmasonar.

Á árinu 2006 var Laugaraukur, og þar með byggingarlandið, selt frá Phoen­ix til Laugarness ehf. og var söluferlið og kaupin unnin og fjármögnuð í gegnum Glitni banka.

Samkvæmt ársreikningi félagsins Laugarness var félagið þó í 100% eigu Phoen­ix fjár­fest­ing­a ehf. og sat Pálmi Sveinn, ásamt föður sínum Pálma Pálmasyni í stjórn þess. Var Laugarakur því einungis færður yfir í annað dótturfélag.

Frá árinu 2006 og þar til Glitnir leysti Laugarakur til sín um mitt ár 2008 var Brynjar Harðarson stjórnarformaður Laugarakurs, en hann er í dag framkvæmdastjóri Valsmanna, sem eiga byggingarlandið á Hlíðarenda, og stjórnarformaður Hlíðarfótar ehf., sem heldur um allar eign­ir og skuld­ir vegna lóðarétt­indanna. Í samtali við mbl vildi Brynjar ekki tjá sig um tilfærslu Laugarakurs til Laugarness.

Mátti ekki falla kusk á afkomu bankans

Brynjar segir að Hanza-hópurinn hafi verið áhrifalaus innan stjórnar Laugarakurs, þrátt fyrir að hafa verið meirihlutaeigandi á blaði og með meirihluta í stjórn. Þetta hafi verið vegna þess að Glitnir lagði allt fjármagnið til og stjórnaði þar með alfarið ferðinni. 

Hann segir bankann hafa haft samband við hópinn þar sem hann hafði áður staðið að byggingarframkvæmdum sem þessum og sagt þeim að um gróðavænlegt verkefni væri að ræða. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. „Þetta var alla tíð óleysanlegur rekstur. Ég gerði endalausar tilraunir til þess að fá Glitni til þess að taka á þessu en það mátti aldrei vegna þess að á árunum 2006 til 2008 mátti ekki falla rykkusk á afkomu bankans. Þess vegna mátti aldrei taka á fjárhagnum,“ segir hann. „Við sem hluthafar gátum aldrei haft nein áhrif á rekstur félagsins.“

Þá hafi byggingarfélagið haldið áfram að byggja eftir árið 2007 þegar engin eftirspurn var eftir íbúðum og skuldir félagsins hafi þar með hækkað. Þar á eftir hafi Miðengi selt íbúðirnar langt undir markaðsvirði. „Þess vegna fór þetta svona,“ segir hann. „Alveg frá árinu 2006 voru teknar eins rangar og vitlausar ákvarðanir og hægt var,“ segir Brynjar.

Gerðu úttekt á söluferlinu

Björn Traustason, framkvæmdastjóri Miðengis, sem jafnframt var stórnarformaður Laugarakurs, er félagið var í eigu Miðengis, segir að óháð úttekt hafi verið gerð á söluferlinu þar sem fram kom að íbúðarinar hafi allar verið seldar á markaðsvirði. Hann segir það einungis hafa verið verkefni Miðengis að vinda ofan af félaginu en óskað var eftir skiptum að því loknu. 

Frá Akrahverfinu
Frá Akrahverfinu Kristinn Benediktsson
Brynjar segir Hanza-hópinn hafa verið áhrifalausan innan Laugarakurs.
Brynjar segir Hanza-hópinn hafa verið áhrifalausan innan Laugarakurs. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK