Björgólfur Thor Björgólfsson er mættur aftur á lista Forbes yfir ríkustu menn heims eftir fimm ára fjarveru. Hann situr í 1.415. sæti og eru auðæfi hans metin á 1,3 milljarða dollara eða tæpa 173 milljarða íslenskra króna.
Björgólfur er eini íslenski milljarðamæringurinn á listanum og bendir Forbes á að hann hafi tapað stórfé í fjármálahruninu.
Á toppnum trónir Bill Gates en þeirri stöðu hefur hann haldið í 16 ár af síðastliðnu 21 ári. Auðæfi hans jukust um 3,2 milljarða dollara frá fyrra ári og eru metin á um 79,2 milljarða follara.
Forbes greinir frá því að metfjöldi milljarðamæringa hafi fundist á þessu ári eða alls 1.826 manns og nema samanlögð auðæfi þeirra um sjö þúsund milljörðum (e. trillion) dollara. Þar af eru 290 nýir á listanum og af þeim kemur 71 frá Kína. Þá virðast ungir vera á uppleið en metfjöldi er undir fertugu á listanum, eða alls 46 manns. Yngstur er Evan Spiegel, stofnandi samskiptaforritsins Snapchat, en hann er 24 ára gamall.
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, færði sig upp um fimm sæti milli ára og situr nú í því sextánda. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst inn á topp 20-listann.
138 manns sem voru á listanum á síðasta ári féllu af honum, þar á meðal eru hönnuðurinn Michael Kors og Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, auk fjölmargra rússneskra auðkýfinga.
Björgólfur Thor Björgólfssonr og Novator, fjárfestingafélag hans, luku á síðasta ári skuldauppgjöri sínu og nam heildarfjárhæð greiðslna um 1.200 milljörðum króna. Þar af fengu íslenskir bankar og dótturfélög þeirra greidda rúma 100 milljarða króna.
Björgólfur gaf þá einnig út bók á síðasta ári þar sem hann fór yfir það hvernig hann varð milljarðamæringur, tapaði öllu og byggði upp veldið á nýjan leik.