Verðlag lækkaði minna á evrusvæðinu í febrúar en spáð hafði verið og eins dró úr atvinnuleysi í sama mánuði. Þrátt fyrir þetta er enn mikil hætta á að verðhjöðnun verði viðvarandi á svæðinu.
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,3% sem er mun minna en í janúar þegar hún lækkaði um 0,6%. Er það einkum orkuverð sem hefur áhrif til lækkunar en í febrúar lækkaði það um 7,9%. Það er hins vegar minni lækkun en í janúar þegar orkuverð lækkaði um 9,3%.
Atvinnuleysi mælist nú 11,2% en var 11,3% í desember. Er þetta minnsta atvinnuleysi á evrusvæðinu frá því í apríl 2012.
Evrusvæðið hefur verið í hægum bata eftir langvarandi skuldakreppu. Hins vegar nam hagvöxturinn einungis 0,2% á þriðja ársfjórðungi 2014 og 0,3% á þeim fjórða.