Tæpum níu milljónum króna var lýst í eignalaust þrotabú Exclusive Boutique C. Ncogo ehf. Félagið var í eigu Catalinu Ncogo og hélt utan um rekstur tískuvöruverslunar hennar Miss Miss í Holtagörðum.
Í Lögbirtingarblaðinu í dag kemur fram að skiptum var lokið þann 12. febrúar síðastliðinn.
Mbl greindi frá því í síðustu viku að farið hefði verið fram á gjaldþrotaskiptin vegna vangoldinnar launakröfu starfsmanns sem hætti vegna ágreinings við Catalinu. Launakrafan hljóðaði upp á 154 þúsund krónur og sá VR um innheimtuna.
Í fyrra samtali við mbl sagðist Catalina hafa sett félagið í þrot til þess að losna undan leigusamningi verslunarinnar í Holtagörðum. Þá hefur einnig einnig sagt frá áformum um að opna nýjar Miss Miss verslanir.
Líkt og áður hefur verið greint frá var Catalina dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í desember 2009 fyrir hagnýtingu vændis og fíkniefnabrot. Hæstiréttur þyngdi þann dóm hins vegar í 3½ ár í júní 2010. Þá var hún einnig dæmd í 15 mánaða fangelsi í júlí 2010 fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni og var dómurinn hegningarauki við fyrri dóm. Catalina var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal.
Hún sat inni í tvö ár í kvennafangelsinu í Kópavogi og var látin laus í júní 2011.